Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Allt að tólf niðurgreiddir tímar í nýjum rammasamningi

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Börn geta fengið allt að tíu meðferðartíma hjá sálfræðingi niðurgreidda samkvæmt rammasamningi sem Sjúkratryggingar Íslands bjuggu til á milli sín og sálfræðinga. Fullorðnir geta fengið allt að tólf tíma. Þetta kemur fram í svörum SÍ við fyrirspurn fréttastofu.

Tryggvi Guðjón Ingason, formaður Sálfræðingafélagsins, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í mánuðinum að samningurinn væri jákvæður að því leyti að verið væri að auka þjónustu fyrir vægari og miðlungs alvarleg einkenni kvíða og þunglyndis. Það væri þó svolítið óljóst ennþá hversu mikið af þjónustunni væri í boði og mörgum spurningum væri ósvarað. 

Fréttastofa hefur nú fengið svör við nokkrum af þeim spurningum sem er ekki svarað í samningnum sjálfum, til að mynda hversu mörg skipti tilvísun getur átt við. Í svari Sjúkratrygginga segir að með greiðsluþátttöku hins opinbera ættu fleiri að hafa tök á því að nýta sér þjónustu sálfræðinga, og umsvif þjónustunnar ættu því að aukast.

Fjármagn sem veitt er til þjónustukaupanna árlega sexfaldast, úr 50 milljónum króna á ári upp í 300 milljónir króna á ári. Viðbótin, 250 milljónir króna, skiptast milli barna og fullorðinna sem nemur 5.500 meðferðartímum fyrir börn og 8.220 tímum fyrir fullorðna sem heilsugæslustöðvar á landinu geta vísað til.

Enn sem komið er vinna tólf sálfræðingar samkvæmt rammasamningi sálfræðinga og Sjúkratrygginga vegna þjónustu við börn og tveir sálfræðingar samkvæmt rammasamningi vegna þjónustu við fullorðna. Tíu barnasálfræðinganna starfa á höfuðborgarsvæðinu og tveir á Akureyri. Í samningnum er boðið upp á möguleikann að veita fjarheilbrigðisþjónustu, sem þeir sem búsettir eru annars staðar á landinu gætu þá nýtt sér. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV