Talibanar innleiða sjaría-lög að fullu

14.11.2022 - 18:00
epa10297433 The Ekhlas Center, a private educational institution providing free education for nearly 2,000 female students above the sixth grade, in Kabul, Afghanistan, 09 November 2022 (issued 10 November 2022). The center imparts classes related to partial school curriculum, Konkur preparation and sewing techniques. The center, according to its head and main funder Haseebullah Maliar, is at risk of closing due to lack of further funding. Parents of girls who are not able to attend high school due a Taliban ban welcomed the initiative while demanding the reopening of regular schools above the grade six. On 18 September 2021 the Taliban announced the reopening of schools for boys at all levels, while girls were limited to primary education only.  EPA-EFE/STRINGER 2072
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sjaríalög verða innleidd að fullu í Afganistan á næstunni, fullyrðir talsmaður stjórnar talibana í landinu. Þegar þeir komust til valda í fyrra lofuðu talibanar að verða mýkri stjórnendur en í fyrri valdatíð, á árunum 1996 til 2001.

Zabihulla Mujahid, talsmaður stjórnar talibana, skrifaði á Twitter í gær að leiðtoginn Haibatullah Akhundzada hefði lýst þessu yfir eftir fund með dómurum í landinu.

Akhundzada hefur farið huldu höfði síðan talibanar komust til valda í ágúst í fyrra. Hann stýrir ríkinu með tilskipunum frá Kandahar, þar sem hreyfingin varð til. Þegar þeir komust til valda í fyrra lofuðu talibanar að verða mýkri stjórnendur en í fyrri valdatíð, á árunum 1996 til 2001. 

Allt frá valdatökunni við brotthvarf Bandaríkjahers í fyrra hafa þeir hins vegar hert tökin og þrengt að íbúum landsins. Þau réttindi sem konur í landinu börðust harkalega fyrir að ná á síðustu fimmtán árum hafa horfið. Um helgina var afgönskum konum bannað að koma í líkamsræktarstöðvar og baðhús landsins. Flestar konur hafa misst störf sín hjá hinu opinbera, og fá greitt fyrir að vinna að heiman. Þá mega þær ekki ferðast án þess að karlkyns skyldmenni fylgi þeim, og þær verða að hylja höfuð sín með slæðum þegar þær fara úr húsi.

Guardian hefur eftir Rahima Popalzai, sérfræðingi í lögum og stjórnmálum í Afganistan, að ákvörðunin geti verið tilraun talibana til að gera ímynd ríkisins harðari en hún var áður en þeir komust til valda. Með innleiðingu sjaríalaga vilji þeir vekja ótta sem þeir telji að samfélagið hafi glatað, telur Popalzai.
Í fyrri valdatíð talibana voru refsingar reglulega gerðar opinberlega, þar á meðal hýðingar og aftökur á Ghazi-leikvangnum í Kabúl.