Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Mannréttindaráð SÞ fundar vegna Írans

epa10259181 People demonstrate during the global protest against the Iranian regime past the office of the UN High Commissioner for Human Rights, in Geneva, Switzerland, 22 October 2022.  EPA-EFE/SALVATORE DI NOLFI
Mótmælt við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Genf í Sviss, þar sem mannréttindaráðið er til húsa. Mynd: Salvatore Di Nolfi - EPA
Neyðarfundur verður haldinn í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna síðar í mánuðinum vegna aðgerða íranskra yfirvalda gegn mótmælendum þar í landi. Fundurinn er haldinn að beiðni fastafulltrúa Þýskalands og Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf.

16 af 47 ríkjum mannréttindaráðsins urðu að samþykkja beiðnina og til þess að sérstakur fundur yrði haldinn, utan þriggja funda sem haldnir eru á hverju ári. 17 ríki hafa þegar samþykkt hana, segir í tilkynningu ráðsins í dag. 

Ekkert lát er á mótmælaöldunni sem hófst fyrir um átta vikum í Íran. Þau hófust eftir að hin 22 ára Mahsa Amini lést þremur dögum eftir að hún var handtekin af siðgæðislögreglu Írans. Hún slasaðist við handtökuna, og lá í þrjá daga á sjúkrahúsi í dái áður en hún lést. Yfir 300 mótmælendur hafa fallið í aðgerðum öryggissveita í Íran að sögn mannréttindasamtaka sem hafa aðsetur í Ósló. Þúsundir hafa verið handtekin, og hafa írönsk yfirvöld boðað dauðadóm yfir mótmælendum.

Fundurinn verður haldinn 24. nóvember.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV