Hrísey orðin fórnalamb eigin velgengni

14.11.2022 - 13:04
Mynd: RÚV / Sölvi Andrason
Næstum helmingur allra húsa í Hrísey eru orlofshús. Fjölskyldur geta ekki flutt þangað vegna skorts á íbúðarhúsnæði. Hríseyingar hafa áhyggjur af afleiðingunum sem þessi þróun gæti haft. 

Hríseyingum getur ekki fjölgað vegna húsnæðisskorts

Hrísey er fögur og búsældarleg, og á undanförnum árum hefur orlofshúsaeigendum í eynni fjölgað. Það má því segja að Hrísey sé orðin fórnarlamb eigin velgengni. „Staðan er bara sú að Hríseyingum getur ekki fjölgað vegna skorts á húsnæði. Hingað vill koma fólk en það hefur engan stað til að búa á,“ segir Ásrún Ýr Gestsdóttir, Hríseyingur og verkefnisstýra byggðarþróunarverkefnisins Áfram Hrísey.

Þrjár fjölskyldur á biðlista eftir húsnæði

Þrjár fjölskyldur hafa lýst yfir áhuga á að flytja út í eyjuna. Ef þær gera það, fjölgar Hríseyingum um 15%. Vandinn er þó sá, að það vantar húsnæði. Á heimasíðunni Hrísey.is var birtu fulltrúar byggðarþróunarverkefnisins Áfram Hrísey frétt þar sem óskað er eftir aðstoð við að leysa þá pattstöðu sem hefur myndast í húsnæðismálum hér í eynni. Sú auglýsing hefur enn ekki borið árangur.

Hætta á að þjónustustig skerðist

Í Hrísey eru eitt hundrað hús. Búið er í fimmtíu og einu húsi allt árið, en fjörutíu og níu eru notuð sem orlofshús. „Það eru u.þ.b. 27 hús í Norðurvegi í Hrísey og af þeim í búið í u.þ.b. sjö,“ segir Ásrún og bætir við að „þegar fækkar fólki sem býr hérna þá náttúrlega minnkar þjónustustigið, þú heldur ekki úti búð sem enginn býr, skólinn leggst af, leikskólinn leggst af og hvað veit maður nema að sundlaugin loki meiri hluta ársins af því það fæst hvorki fólk í vinnu né fólk sem býr á staðnum sem nýtir sér þjónustuna og hver vil eiga sumarhús í dauðri byggð?“

Skilja vel áhugann á Hrísey en harma stöðuna

Narfi Freyr Narfason og Jóhanna María Jóhannsdóttir eru á meðal þeirra heppnu sem hefur tekist að flytja út í Hrísey á síðustu árum. „Það er náttúrulega bara frekar leiðinlegt að þetta skuli vera flest allt sumarhús. Maður skilur það alveg, það er kyrrðin og róin er svo góð hérna að fólk vill eiga sumarhús hérna en það væri miklu betra ef það væru fleiri húsnæði fyrir fjölskyldur sem vilja koma,“ segir Jóhanna.