Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bankasýslan bak við luktar dyr

Mynd: Þór Ægisson / Fréttir
Forstjóri bankasýslunnar gefur ekki á kost á viðtali vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins á Íslandsbanka þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við störf Bankasýslunnar.

Alvarlegar athugasemdir við störf Bankasýslunnar

Í skýrslunni er til að mynda sagt að Bankasýslan hafi ekki búið yfir nauðsynlegum mannauði til að rækja hlutverk sitt og erlendir ráðgjafar hafi ráðið för við söluferlið. Í söluferlinu voru bréf í bankanum seld á genginu 117 krónur, sem var fimm krónum undir þáverandi markaðsverði. Þetta var gert þrátt fyrir margfalda umframeftirspurn fjárfesta. Ríkisendurskoðun segir berum orðum að hægt hefði verið að selja öll bréfin á 120,5 krónur, sem hefði skilað ríkinu rúmlega einum og hálfum milljarði króna til viðbótar. 

Þá segir Ríkisendurskoðun að huglægu mati virðist hafa verið beitt til að ákveða hvaða tilboðum skyldi tekið. Í skýrslunni er haft eftir Bankasýslunni að það sé list en ekki vísindi að velja kaupendur. 

Ríkisendurskoðun telur enn fremur að Bankasýslan og fjármálaráðuneytið hafi ekki haldið þingmönnum nægilega upplýstum um söluferlið og Bankasýslan hafi forðast að fjalla um mögulegan afslátt þegar ákveðið var að selja hlutinn með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi.

Til stendur að leggja Bankasýsluna niður. Ríkisstjórnin tilkynnti það um mánuði eftir útboðið og sagði söluna ekki hafa staðið undir væntingum um gangsæi og skýra upplýsingagjöf. 

Forstjórinn gefur ekki kost á viðtali

Mörgum spurningum er enn ósvarað og fréttastofa hefur ítrekað reynt að ná tali af starfsmönnum Bankasýslunnar eftir að skýrslan var gerð opinber en án árangurs. Á skrifstofu Bankasýslunnar í Borgartúni ræddi forstjórinn Jón Gunnar Jónsson stuttlega við fréttamenn sem þangað voru komnir í leit að viðbrögðum við skýrslunni. Hann sagðist þar vera á fundi og ekki geta rætt við fréttamenn sem óskuðu eftir viðtali. Að lokum sagðist hann ekki ætla að gefa kost á því. 

Ríkisendurskoðandi gefur heldur ekki kost á viðtali og segir skýrsluna tala sínu máli.