Akureyringar hyggjast slíta vináttu við Murmansk

14.11.2022 - 14:00
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Bæjarráð Akureyrarbæjar leggur til að vinabæjarsamstarfi við Rússneska bæinn Murmansk verði slitið, ásamt aðild að samtökunum Northern Forum. Ástæðan er innrás Rússa í Úkraínu.

Fordæma innrás rússneskra stjórnvalda

Murmansk er 300.000 íbúa borg í norðvestur Rússlandi en samstarf hefur ríkt á milli Murmansk og Akureyrarbæjar frá árinu 1994. En nú gæti séð fyrir endann á því samstarfi því bæjarráð hefur lagt til við bæjarstjórn að samstarfinu verði slitið. Heimir Örn Árnason, nefndarmaður, segir ráðið fordæma innrás rússneskra stjórnvalda.

Hvernig býstu þá við að tillögunni verði tekið? 

Ég býst við að það verði bara samþykkt að slíta samstarfinu.

Hvernig hefur þessu vinabæjasamstarfi verið háttað hingað til?

Það hefur verið mjög lítið undanfarin ár. Það er náttúrlega búið að vera covid og ég held að það séu bara mörg, mörg ár síðan eitthvað hefur verið gert.

Samhljómur innan bæjarráðs

Auk þessa lagði ráðið til að Akureyrarbær segði sig úr samtökunum The Northern Forum, sem samanstendur að stórum hluta af sveitarfélögum í Rússlandi. Heimir segir samhljóm innan bæjarráðs um að slíta þessu samstarfi. Málin bíða nú afgreiðslu bæjarstjórnar.