Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Murtustofninn í Þingvallavatni hruninn

Mynd: RÚV / RÚV
Murtustofninn í Þingvallavatni hrundi í haust. Líffræðingar veiddu örfáar hrygnur en voru áður með fullan bát. Loftslagshlýnun er ein ástæða hrunsins. 
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingvallamurta
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Í eina tíð var murtan mikil búbót og veiddist í tonnavís í Þingvallavatni. Niðursuðuverksmiðjan ORA seldi murtur í dósum og munu hafa verið veidd 70 tonn eitt sumarið þess vegna. Murtan er bleikjuafbrigði. Murtan er ekki bara í uppáhaldi hjá mannfólkinu heldur hakkar stóri urriðinn í vatninu hana í sig. 

Í haust urðu hins vegar miklar breytingar: 
„Hlutfall fullorðins hrygningarfisks eiginlega bara hrundi,“ segir Finnur Ingimarsson forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs, „vanalega höfum við haft töluvert mikið til dæmis af kynþroska fiski. Og báturinn er fullur af hrognum þegar við erum að draga netin. En núna eru hrygnur í raun og veru bara taldar á fingrum annarrar handar.“

Þetta er þá algjört hrun í murtustofninum miðað við þessar tölur?

„Já alla vega svona hrygningarfiskinum. Sem sagt meðalstærð fiska hefur hrunið.“

Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur vaktað lífríki Þingvallavatns síðan 2007 í samvinnu við Þingvallanefnd, sveitarfélögin, Landsvirkjun og Orku náttúrunnar. 

Murta vill helst vera í köldu vatni. En vatnið er orðið alltof hlýtt á sumrin.  Kjörhitastig bleikju að sumarlagi er svona átta til tíu gráður. Hitastig Þingvallavatns hefur hækkað um hálft til tvö stig alla mánuði ársins nema febrúar, mars og apríl. Hlýtt er fram á haustið það er á hrygningartímanum og bleikjuhrogn þroskast í frekur köldu vatni, segir Finnur.

Þrír þættir gætu haft áhrif á hrun hrygningarfisksins. 

„Þetta er nátturulega þessi margumtalaða hlýnun. Og urriðastofninn í vatninu hefur styrkst mjög mikið síðustu ár.“

Og svo síðustu þrjú ár hafa verið slök ár hjá helstu fæðutegund murtunar; krabbadýrum. Enn er verið að vinna úr þessum gögnum. Umhverfisstofnun var samstundis gert viðvart. Og Finnur segir að í framhaldinu sé brýnt að efla vöktun í vatninu. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þungbúið á Þingvöllum.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV