Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Aukin skriðuhætta á Suðausturlandi og Austfjörðum

13.11.2022 - 16:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Mikið hefur rignt á Suðausturlandi og Austfjörðum undanfarna viku. Grunnvatnsstaða er víða há og þar sem áfram er spáð talsverðri úrkomu getur skapast aukin hætta á skriðuföllum. Hættan á Austfjörðum er einkum á þeim sunnanverðum.

Þótt úrkoma hafi verið lítil síðustu tvo daga er gert ráð fyrir miklum rigningum þarna næstu tvo sólarhringa, þó meiri á Suðausturlandi. 

Á Austurlandi öllu er spáð ósamfelldri rigningu næstu rúmu vikuna. Fram til miðvikudags  er spáð vel innan við 100 millimetra úrkomu til fjalla á norðanverðum Austfjörðum. Rigningar á láglendi verða enn minni. 

Í síðustu viku rigndi töluvert á Austfjörðum og var uppsöfnuð úrkoma á Seyðisfirði yfir vikuna tæplega 200 millimetrar. Vatnshæð er há í flestum borholum á Seyðisfirði og Eskifirði, en hefur þó lækkað frá því þegar mest var í lok síðustu viku. 

Þá greinir Veðurstofan frá því að grannt sé fylgst með hreyfingu í Neðri-Botnum á Seyðisfirði með hinum ýmsu mælitækjum. Hreyfing varð á Búðarhrygg á föstudag, sem virðist þó hafa stöðvast, en það er sami hryggur og var á hreyfingu síðasta haust. Hreyfingin er minni en sú sem var í fyrra.

Auk þess sáust merki um hreyfingu í Þófa í radarmælingum en sú var minni en í hryggnum við Búðará.

Hreyfingin sem sást núna er ekki sögð gefa tilefni til aðgerða, enda mun minni og hægari en hreyfingin sem varð á hryggnum við Búðará í fyrra. Þótt úrkoma  verði að líkindum ekki mikil næstu daga þarf að fylgjast vel með aðstæðum, enda viðbúið að grunnvatnsstaða haldist áfram há.