Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Loksins aftur Airwaves – eru ekki allir í fiðring?

Mynd: Ásgeir Helgi / Aðsend

Loksins aftur Airwaves – eru ekki allir í fiðring?

12.11.2022 - 13:12

Höfundar

„Síðustu helgi sneri Iceland Airwaves loksins aftur í miðbæ Reykjavíkur eftir þriggja ára hlé. Þó að hátíðin hafi verið eilítið smærri í sniðum en stundum áður var hún þó frábær skemmtun og endurkoman mjög kærkomin eftir tvö mögur covid-ár nú þegar skammdegið sullast yfir landann.“ Davíð Roach Gunnarsson, tónlistargagnrýnandi Lestarinnar, skellti sér á Airwaves-tónlistarhátíðina um nýliðna helgi.

Davíð Roach Gunnarsson skrifar:

Ég finn alltaf fyrir þessum sérstaka Airwaves-fiðringi á upphafsdegi hátíðarinnar þegar miðbærinn fyllist af útlenskum hipsterum á þönum með nefið ofan í bæklingum, og snjallsímum í seinni tíð. Þegar hátíðin var upp á sitt stærsta stóð opinbera dagskráin yfir frá miðvikudegi til sunnudags og off-venue-in skiptu mörgum tugum. Ég sá einhvern tímann Hot Chip spila í bókabúð klukkan fimm á fimmtudegi, það er ákveðin sturlun. Núna var dagskrá frá fimmtudegi til laugardags en ég tók forskot á sæluna og mætti í fyrirpartý á KEX á miðvikudeginum þar sem Berndsen var að spila. Það eru nokkur ár síðan ég sá Berndsen síðast en hann hefur greinilega engu gleymt, og mætti með rakettudólg í rassinum í bleikri peysu á galinni útopnu. Arnljótur hetjaðist á gítarnum, Hermigervill skrattaðist á synþunum og saman fór þríeykið á hundavaði yfir það heitasta frá gjörvöllum níunda áratugnum í gríðarþéttri keyrslu.

Á fimmtudeginum var ég svo mættur aftur á KEX til að sjá Ara Árelíus, sem ég mærði í pistli á þessum vettvangi fyrir stuttu síðan. Hann spilar ósungna grúvtónlist með alþjóðlegum og exótískum straumum, sem minnir stundum á bandarísku sveitina Khruangbin. Hann var betri en þegar ég sá hann síðast, og við hljómsveitina sem samanstendur auk hans á gítar af trommum, conga og bassa, hafði bæst hljómborðsleikari sem greip einstaka sinnum í trompet, auk þess sem Conga-leikarinn var með sílófón á kantinum. Trompet-inn togaði sum lögin út í Ennio Morricone-lega spaggetívestradramatík og önnur út í 70’s fusion Weather Report, bandið keyrði sig í gegnum settið af feiknalegu öryggi. 

Alltaf ökónómísk

Næst á svið voru hin stundumþunglyndu en alltaf andfasísku BSÍ, band sem samanstendur af Sillu Thorarensen sem spilar á trommur og syngur og Julius Pollux Rothlaender á bassa. Þau spila mínímalíska og dillandi blöndu af póstpönki og fönki sem minnir um margt á No Wave-bönd frá því ca 1980 eins og Liquid Liquid. Það er mikil ökönómík í sándinu hjá þeim, hvernig þau ná að skapa eitthvað stórt úr ótrúlega fáum hráefnum, og samspilið milli bassa, trommu og raddar minnti stundum á dáleiðandi og mjaðmaskekjandi ryþma grúvsveitarinnar ESG.

Ég hélt þvínæst niður í Hafnarhúsið til að sjá pönkbandið Amyl & the Sniffers sem ég hafði gaman af fyrst um sinn en fékk leið á eftir korter eða svo. Þó þetta hafi verið mjög vel gert hef ég séð svipuð bönd oft áður, og gámurinn í Listasafninu kannski ekki besti vettvangurinn fyrir band ef þessum toga, sem hefði notið góðs af minni stað og meiri nánd. Ég endaði svo kvöldið aftur á KEX þar sem DJ Flugvél og geimskip flutti sitt helsteikta naívistateknó á fullu blasti.

Reif í orgelið

Ég byrjaði föstudaginn snemma á því að mæta í kirkju, þegar ég sá tónleika organistans Kristjáns Hrannars Pálssonar þar sem hann lék plötuna Discovery eftir Daft Punk í heild sinni á risastórt orgelið í Hallgrímskirkju. Það er ótrúlegt þrekvirki að útsetja og spila jafn flókna og margbrotna plötu og Discovery er á eitt hljóðfæri en Kristjáni fórst það gríðarvel úr hendi á einstökum viðburði sem var bæði hátíðlegur og taktfastur, og gæsahúðin reis hátt þegar hann þandi orgelið til hins ýtrasta í lögum eins og Aerodynamic, Superheroes og Verdis Quo.

Næst var ég mættur á stappfullan Húrra til að sjá tríóið russian.girls. Þau voru verðlaunuð fyrir besta raftónlistarlag ársins á íslensku tónlistarverðlaununum fyrir lagið Halda áfram, lag sem kjarnar væb sem mér finnst algjörlega þeirra eigin; Halda áfram, gefast upp, draumar lifa, draumar deyja, koma heim, aldrei neitt, sitja fastur, ferðast aftur, muna, ekki gleymt.

Þetta er einhvers konar svipbrigðalaust  og deadpan möntruteknó, níhílískur dada-ismi ofan í dúndrandi bassatrommukeyrslu og júforískar synþa-arpeggíur þannig það er ómögulegt annað en að hoppa í takt í við eigið sjálfshatur. Þau eru líka alltaf jafn eitursvöl á sviðinu sama hvað crowdið er að missa sig, contrastinn þar á milli var eitt af mörgu sem gerði þetta að geggjuðu show-i, og ég bíð mjög spenntur eftir fyrstu alvöru breiðskífunni frá Russian.girls.

Snekkjan í heimahöfn

Breska djammsveitin Metronomy hélt hverri einustu sálu spriklandi í Hafnarhúsinu með sinni einstöku blöndu af indísvita og diskórokki. Þetta er svellþétt band sem á jafn vel heima á skútunni og dansklúbbnum, og það brutust út mikil fagnaðarlæti í slögurunum The Bay og The Look. En ég hafði jafn gaman af instrumental langhundum þar sem synþanum var hleypt á skeið í tilkomumiklum sólóum og flugeldasýningum. Frábært sett, en það átti eftir að verða betra

Aðdáun mín á hollensk-tyrknesku svetinni Altin Gün hefur ekki farið mjög leynt, en ég blaðra henni í alla sem nenna að hlusta á hana og hef fjallað tvisvar um hana í pistlum á þessum vettvangi.  Þetta er sex manna band sem flytur tyrkneska þjóðlagatónlist í síkadelískum og fönkuðum útsetningum. Væntingar mínar voru stilltar hátt en Altin Gün sprengdu alla skala í loft upp með gríðarlegri grúvkeyrslu, sjarmerandi sviðsframkomu og ótæmandi útgeislun. 

Samspilið var harmónískt og flæðandi án feilnótna, en samt alltaf lifandi og aldrei mekanískt, oft með löngum instrumental djammköflum inn á milli þar sem brast á með virtúósó sólóum. Þar bar hæst annan af söngvurunum, sem spilaði á tyrkneska gítar/sítar afbrigðið saz, auk þess að þenja synþesærara í allar áttir og blanda þannig retrófútúrískri sci-fi-stemmingu ofan í tyrkneska folkið og þúsund og eitt fönkið. Það voru óteljandi móment á tónleikunum þar sem ég glotti út að eyrum af gleði, hoppaði hátt, og kýldi í öxlina á vinum, bara til að deila með þeim þeirri stjórnlausu kátínu sem skein úr augunum á mér. Hiklaust bestu tónleikar hátíðarinnar.

Skrattar og Púkinn

Á laugardagskvöldinu hóf ég svo leikinn á sveitinni Lotto á KEX sem lék vandað indípopp sem minnti stundum á 90’s-bönd eins og Yo La Tengo. Á eftir þeim kom svo rafpoppsveitin Kvikindi sem flíkaði flottum lagasmíðum með áhugaverðum kaflaskiptingum, geggjuðum textum, og einni flottustu frontkonu landsins um þessar mundir; Brynhildi Karlsdóttur, sem er jafnvíg á pönkuð öskur og háfleyg Kate Bush cover.

Það var smekkfullur og svitamettaður Húrra sem tók á móti mér þegar ég mætti, klukkan að nálgast hálftólf, Skrattar næstir á svið, og eftirvæntingin áþreifanleg. Skrattar komu á svið, fóru úr að ofan, og upphófst kaótísk hópsturlun næsta hálftímann eða svo sem erfitt er að henda reiður á eða staðsetja sig í; sándið var geggjað, þú steigst í glerbrot alls staðar, öskrað á þig úr öllum áttum, þú vissir aldrei hvar frontmennirnir Sölvi og Kalli voru þá stundina, og þú varst hvergi óhultur fyrir bjórslettum eða moshpittinum sem yfirtók allt dansgólfið á síðari hluta tónleikana. Skrattar eru fenómen, hættulegasta og mest lifandi band landsins. Að þeim loknum hljóp ég svo yfir á Iðnó og náði tveimur lögum með Unnsteini, þar sem síðasta lagið Púki sprengdi algjörlega þakið af kofanum. Þessi nýja teknó-popp stefna sem hann er að færa sig út í er allrar athygli verð.

Að því loknu kíkti ég svo á DJ-settið hjá Royksopp í Hafnarhúsinu sem var ágætis djamm, en ekkert mikið meira. Þegar stærsta nafnið á hátíðinni er með dj-sett sem er jafnframt síðasta atriðið, þá býst maður við smá flugeldum, einhverju aðeins meira en ágætu laugardagskvöldi á Kaffibarnum, sem mér fannst þetta vera eins og. Að því sögðu var hátíðin heilt yfir mjög vel heppnuð þó hún hafi verið smærri í sniðum en stundum áður, og ég sá mikið af góðum atriðum, þar sem Altin Gün báru af, en Metronomy, Skrattar og Russian.girls komu þar á eftir. Það er gott að fá Airwaves aftur og ég var búinn að sakna fiðringsins og stemmingarinnar.

Davíð Roach Gunnarsson flutti pistil sinn í Lestinni á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

Þjóðlegar kynjaverur í alþjóðlegum grúvstraumum

Tónlist

Það er öllum, Skröttum og ömmu þeirra drullusama

Tónlist

Tónlist fyrir heiminn en ekki „heims“-tónlist