Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ekkert verður af komu flóttafólks til Kumbaravogs

12.11.2022 - 07:16
Mynd með færslu
Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðastjóri vegna móttöku flóttafólks. Mynd: RÚV
Ekkert verður af því flóttafólk verði hýst á Kumbaravogi við Stokkseyri eins og til stóð. Morgunblaðið greinir frá þessu og hefur eftir Gylfa Þór Þorsteinssyni aðgerðastjóra vegna móttöku flóttafólks.

Fréttastofa greindi frá því fyrir tveimur vikum að ríkið hefði tekið Kumbaravog, sem er gamalt hjúkrunarheimili, á leigu undir fimmtíu hælisleitendur án samráðs við sveitarfélagið Árborg.

Fjóla Kristinsdóttir, bæjarstjóri í Árborg, sagði af því tilefni að staðsetningin væri óheppileg enda langt í þjónustu og engar samgöngur til og frá staðnum.

Gylfi Þór segir í samtali við Morgunblaðið að fallið hafi verið frá þessum hugmyndum, en aldrei hafi neitt verið fast í hendi.

Hann segir að samvinna við sveitarfélagið sé engu að síður góð. Nýlega samþykkti Árborg að fjölga þeim flóttamönnum sem tekið verður á móti upp í 75. Því er leitað að heppilegu húsnæði fyrir fólkið.

Mynd með færslu
Kumbaravogur var áður hjúkrunarheimili. Eftir að því var lokað hefur gistiheimili verið rekið í húsinu. Mynd: RÚV
Kumbaravogur var áður hjúkrunarheimili. Eftir að því var lokað hefur verið rekið gistiheimili í húsinu.