Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Úrbætur á Hlíð ótvírætt viðfangsefni ríkisins“

11.11.2022 - 09:26
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Úrbætur á húsnæði hjúkrunarheimilisins Hlíðar eru ótvírætt viðfangsefni ríkisins. Þetta segir bæjarstjórinn á Akureyri. Mygla hefur greinst á deildum heimilisins og þörf er á tafarlausum aðgerðum.

Ríkið á að sjá um leigjanda húsnæðisins

Akureyrarbær á hluta af fasteignum Hlíðar, en rekstur hjúkrunarheimilisins er í höndum einkafyrirtækisins Heilsuverndar. Ríkinu ber lögum samkvæmt að reka hjúkrunarheimili á landinu, en Akureyrabær annaðist rekstur Hlíðar sem reynslusveitarfélag.

Rekstrinum var hins vegar skilað aftur til ríkisins árið 2021 vegna mikils hallareksturs, sem nam rúmlega 500 milljónum króna. Síðan hefur húsnæði Hlíðar verið nýtt af Heilsuvernd, en Akureyrabær hefur ekki fengið greidda leigu fyrir húsnæðið, hvorki frá fyrirtækinu né ríkinu.

Vilja að ríkið kaupi bæinn út

Samkvæmt upplýsingum frá Akureyrarbæ hefur verið óskað eftir því að leyst verði úr þessari stöðu með því að ríkið kaupi hlut Akureyrarbæjar í fasteignunum.

Í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar er haft eftir Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri, að bærinn sé ekki í neinu samningssambandi við Heilsuvernd, og að viðgerðir á húsinu séu í höndum ríkisins. 

„Nú eru komnar fram vísbendingar um að raki sé á tilteknum stöðum og húsnæðið ekki heilsusamlegt. Það var því miður ekki forsvaranlegt að sveitarfélagið ræki áfram hjúkrunarheimili í bænum með hundruð milljóna króna halla. Við skiluðum því rekstrinum aftur til ríkisins og ríkið samdi við Heilsuvernd. Akureyrarbær er ekki í neinu samningssambandi við Heilsuvernd en úrbætur á húsnæðinu, hvort heldur sem er viðgerðir eða nýbyggingar, hljóta ótvírætt að vera viðfangsefni ríkisins,“ segir Ásthildur.