Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vilja ekki þaravinnslu á hafnarsvæðið á Húsavík

10.11.2022 - 16:21
Mynd: RÚV / Björgvin Kolbeinsson
Mikil andstaða er á Húsavík gegn því að reist verði þarahreinsistöð á hafnarsvæði bæjarins. Andstaðan er einna mest hjá ferðaþjónustunni sem er afar umsvifamikil við höfnina. Þá er ekki samstaða um málið í hafnarstjórn.

Ferðaþjónustunni líst illa á verksmiðju við höfnina

Íslandsþari vill fá að reisa tæplega 5.000 fermetra byggingu við Húsavíkurhöfn á lóð sem er um 12.500 fermetrar. Skammt frá slær hjarta ferðaþjónustunnar á Húsavík með veitingastöðum og aðstöðu hvalaskoðunarfyrirtækja. Ferðaþjónustunni líst illa á verksmiðju á þessum stað.

„Auðvitað snýr þetta að ásýnd hafnarinnar“

„Auðvitað snýr þetta að ásýnd hafnarinnar. Þetta er stór bygging, næstum því 5000 fermetrar. Þá yrði umferð hér yfir háannatímann af þungaflutningum,“ segir Heiðar Hrafn Halldórsson, verkefnastjóri hjá Hvalasafninu á Húsavík. „Svo mögulega einhverjir árekstrar þessarar starfsemi við starfsemi skemmtiferðaskipa sem eru í síauknum mæli að koma hingað.“

Langt í að tekin verði endanleg ákvörðun 

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, kannast við þessar áhyggjur og segist hafa á þeim skilning. Enn sé þó langt í að tekin verði endanleg ákvörðun. „Sveitarstjórn mun núna í lok mánaðarins taka ákvörðun um að vísa tillögunni í þetta hefðbundna skipulagsferli. Þannig að þá hafa íbúar og ferðaþjónustuaðilar, og allir í rauninni á landinu, tækifæri til að koma sínum áhyggjum á framfæri.“

„Þetta er eina plássið sem við höfum“

Áki Hauksson, fulltrúi í stjórn Hafnarsjóðs Norðurþings hefur lýst andstöðu við þessi áform. Hann telur höfnina alls ekki getað misst þessa lóð undir aðra starfsemi. „Ég tel svo vera, þetta má ekki fara. Við erum þegar farin að þrengja að okkur athafnarlega séð hér. Þetta er eina plássið sem við höfum upp á framtíðina að gera.“ Og hann segir að til dæmis þurfi fyrirtæki, sem væntanleg séu á iðnaðarlóðir á Bakka í framtíðinni, athafnasvæði þarna við höfnina.

Þurfi að meta hvaða áhrif þetta hefur á athafnasvæðið

Aðspurð hvort bygging Íslandsþara tæki of mikið pláss við höfnina, segir Katrín að þetta sé vissulega gríðarstór bygging. „Það þarf bara að skoða það hvernig athafnasvæðið, sérstaklega með tilliti til stærri flutninga, rúmast með þessari hugmynd eins og hún liggur fyrir.“