Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Óduldar hótanir Írana í garð nágrannaríkjanna

10.11.2022 - 16:00
epa10288062 Dortmund fans show a banner reading "Freedom for Women in Iran" during the German Bundesliga soccer match between Borussia Dortmund and VfL Bochum in Dortmund, Germany, 05 November 2022.  EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL CONDITIONS - ATTENTION: The DFL regulations prohibit any use of photographs as image sequences and/or quasi-video.
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Írönsk stjórnvöld hafa í hótunum við nágrannaríki sín og vara við alvarlegum afleiðingum hvers kyns athafna sem veiki og dragi úr stöðugleika landsins. Ekkert útlit er fyrir endalok umfangsmikilla mótmæla gegn klerkastjórninni.

„Íslamska lýðveldið Íran hefur hingað til sýnt djúpt ígrundaða þolinmæði en hún þverr fljótt aukist fjandskapur í þess garð.“ Þetta segir Esmail Khatib, íranskur ráðherra leyniþjónustu- og upplýsingamála.

Hann segir önnur ríki á svæðinu ekki munu fara varhluta af hvers kyns upplausn innan Írans. „Glerhallir þeirra hrynja og stöðugleiki hverfur ákveði Íran að refsa þeim.“

Ráðherrann beinir orðum sínum sérstaklega að Sádí-Aröbum og segir nábýlið skapa sameiginleg örlög ríkjanna. Ummæli Khatibs voru birt á vefsíðu æðsta leiðtogans Ajatollans Ali Khamenei.

Íranir saka erkióvini sína um að standa að baki aðgerðunum, þeirra á meðal Bandaríkjamenn og Sádí-Araba.

Umfangsmestu mótmæli um 40 ára skeið

Mótmælin brutust út eftir andlát Mahsa Amini, ungrar kúrdískrar konu, í höndum siðgæðislögreglu Írans um miðjan september. Tugir liggja í valnum, helst úr hópi andófsfólks en einnig nokkur fjöldi öryggislögreglumanna. 

Hin 22 ára Amini, var handtekin vegna meints brots á reglum um hvernig konur skuli klæðast höfuðskýlu sinni, eða hijab. Leita þarf meira en fjörutíu ár aftur í tímann til að finna jafn umfangsmikil mótmæli í landinu og nú standa yfir.

Íranir staðhæfðu í síðasta mánuði að leyniþjónusta Bandaríkjanna hefði uppi launráð og espaði landsmenn til uppþota í samvinnu við slíkar stofnanir í Bretlandi, í Ísrael og Sádí-Arabíu.