„Íslamska lýðveldið Íran hefur hingað til sýnt djúpt ígrundaða þolinmæði en hún þverr fljótt aukist fjandskapur í þess garð.“ Þetta segir Esmail Khatib, íranskur ráðherra leyniþjónustu- og upplýsingamála.
Hann segir önnur ríki á svæðinu ekki munu fara varhluta af hvers kyns upplausn innan Írans. „Glerhallir þeirra hrynja og stöðugleiki hverfur ákveði Íran að refsa þeim.“
Ráðherrann beinir orðum sínum sérstaklega að Sádí-Aröbum og segir nábýlið skapa sameiginleg örlög ríkjanna. Ummæli Khatibs voru birt á vefsíðu æðsta leiðtogans Ajatollans Ali Khamenei.
Íranir saka erkióvini sína um að standa að baki aðgerðunum, þeirra á meðal Bandaríkjamenn og Sádí-Araba.
Umfangsmestu mótmæli um 40 ára skeið
Mótmælin brutust út eftir andlát Mahsa Amini, ungrar kúrdískrar konu, í höndum siðgæðislögreglu Írans um miðjan september. Tugir liggja í valnum, helst úr hópi andófsfólks en einnig nokkur fjöldi öryggislögreglumanna.
Hin 22 ára Amini, var handtekin vegna meints brots á reglum um hvernig konur skuli klæðast höfuðskýlu sinni, eða hijab. Leita þarf meira en fjörutíu ár aftur í tímann til að finna jafn umfangsmikil mótmæli í landinu og nú standa yfir.
Íranir staðhæfðu í síðasta mánuði að leyniþjónusta Bandaríkjanna hefði uppi launráð og espaði landsmenn til uppþota í samvinnu við slíkar stofnanir í Bretlandi, í Ísrael og Sádí-Arabíu.