Sigríður Björk sagði sig frá rannsókn á meintri skipulagningu hryðjuverka í lok september, eftir að nafn föður hennar kom upp við rannsókn málsins. Síðar kom í ljós að húsleit hafði verið gerð á heimili hans og hann yfirheyrður samhliða því vegna gruns um sölu og kaup ólöglegra vopna.
Fréttastofa birti í gær útdrátt úr skýrslu lögreglu yfir Guðjóni, þar sem fram kemur að hann hafi ítrekað vísað til dóttur sinnar í skýrslutökunni og látið að því liggja að lögreglumenn ættu ekkert með að yfirheyra hann í ljósi stöðu dóttur hans.
Sigríður Björk telur ekki ástæðu til að hún bregðist við málinu með frekari hætti. „Ég myndi ekki halda það, nei. Þetta hefur ekkert með mig að gera,“ segir hún aðspurð og bætir við að hún hafi þegar sagt sig frá málinu og ekki tekið þátt í umræðunni. Hún vill ekki segja til um hvort henni þyki umfjöllun um föður hennar óþægileg.