Sagt skilið við Svala með söknuði

09.11.2022 - 19:28
Mynd: RÚV / RÚV
Ávaxtadrykkurinn Svali hverfur senn úr verslunum. Framleiðslu verður hætt um áramótin, rúmlega fjörutíu árum eftir að drykkurinn kom fyrst á markað.

Svali leit fyrst dagsins ljós 1982 og er þar með einn elsti svaladrykkur landsins. Í fyrstu Svalaauglýsingunni gerði HLH flokkurinn honum hátt undir höfði.

Íslendingar tóku honum vel og brátt varð Svali fyrsti útflutti íslenski drykkurinn þegar hann fór í búðir í Bretlandi 1986. En hápunkturinn var kannski þegar Jón Páll Sigmarsson, sterkasti maður heims, auglýsti Svala ásamt Sverri Stormsker. 

Appelsínusvali ruddi brautina sem fyrsti svalinn og ásamt honum er enn hægt að næla sér í epla- og jarðarberjasvala. Sólberjasvali, perusvali og sítrónusvali hafa komið og farið við misgóðar undirtektir. En tímarnir breytast og drykkirnir með og nú, meira en fjörutíu árum síðar. Segjum við skilið við Svala.

Svalasala hefur dalað hægt og rólega

„Þetta er hluti af stærra verkefni. Coca-cola Company er að fækka talsvert í sínu vöruframboði og Svali er eitt af þeim vörumerkjum sem hverfur í þeirri tiltekt,“ segir Einar Snorri Magnússon forstjóri Coca-cola á Íslandi.

En hefur Svalasala dalað?

„Pínulítið, hægt og rólega.“

Þúsundir vilja að hætt sé við að hætta að framleiða svala

Ekki stendur á viðbrögðunum á samfélagsmiðlum og virðast mörg tengjast ævintýradrykknum tilfinningaböndum. 

Nokkur þúsund manns hafa þá skrifað undir áskorun um að hætta við að hætta framleiðslu Svala.

Einar segir að erfitt hafi verið að taka ákvörðun um að hætta framleiðslu á Svala. 

„Já, það var það. Svali á fjörutíu ára sögu og er hluti af íslenskri menningu og kúltúr í langan tíma. Okkur þykir vænt um hann, þannig þetta var ekki auðvelt.“