Kanna þarf heilsulæsi Íslendinga

09.11.2022 - 22:01
Mynd: RÚV / RÚV
Heilsulæsi hefur mælst undir 50% í Evrópu en heilsulæsi Íslendinga hefur ekki enn verið rannsakað. Alma Möller landlæknir sagði í Kastljósi í kvöld að auka þurfi heilsulæsi í skólum landsins enda sé góð heilsa undirstaða menntunar.

Á lýðheilsuþingi á morgun flytur Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, erindi um heilsulæsi. Hann var gestur í Kastljósi kvöldsins ásamt Ölmu. 

„Heilsulæsi er svona hugtak sem hefur verið smíðað til þess að nota utan um hversu vel fólk nær að finna, skilja og nota upplýsingar um heilbrigðiskerfið eða þjónustuna eða taka heilsutengdar ákvarðanir. Það getur verið hvort eigi að tala við heilbrigðiskerfið og hvert á að rata, hvort að fólk skilji leiðbeiningar heilbrigðisstarfsfólks eða fylgiseðilinn á lyfjunum,“ sagði Gylfi. 

Aðspurð hvernig heilsulæsi væri almennt hér á landi svaraði Alma:

„Það hefur ekki verið gerð mæling hérlendis en það hefur verið gerð mæling í Evrópu og þá var helmingur fólks sem hafði ekki nógu gott heilsulæsi. Þannig við þurfum að vinna að því alls staðar. Það er kannski gott að heilbrigisstarfsmenn gangi á undan með góðu fordæmi en við þurfum líka að vinna að heilsulæsi í skólum því heilsa og velferð er eitt af grunnstoðum menntunar og þar er auðvitað jarðvegur til að leggja grunn að heilsulæsi.“

Mikill fjárskortur á landsbyggðinni

Formaður læknafélagsins hefur bent á að það stefni hratt í að ákveðin byggðalög verði læknislaus innan fáeinna ára ef ekki verði brugðist við. Í minnisblaði forstjóra þeirra sex heilbrigðisstofnanna sem eru á landsbyggðinni segir svo að það stefni í um 900-1.100 milljón króna hallarekstur þeirra stofnana á árinu.

„Við erum með mjög gott heilbrigðiskerfi en við þurfum meiri pening til að geta sinnt þeirri þjónustu sem kröfur eru um og við viljum og getum veitt,“ segir Gylfi. 

En hvernig er staðan gagnvart sjúklingum?

„Við vildum gjarnan veita meiri þjónustu, meiri sérgreinaþjónustu og þannig það sé hægt að fullvinna sjúklinga og sinna þeim í sinni heimabyggð. Það er náttúrulega takmörkunum háð hvað hægt er að gera í litlu umdæmi þar sem eru lítil sjúkrahús og svo framvegis. En það er hægt að gera betur,“ segir Gylfi en bætir við að til þess þurfi meiri peninga.

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV
sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir