Boða til kosninga í Færeyjum í kjölfar vendinga

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Árting Rubeksen/KVF
Boðað hefur verið til þingkosninga í Færeyjum þann 8. desember, í kjölfar þess að stjórnmálamaðurinn umdeildi Jenis av Rana var rekinn af ráðherrastóli í landsstjórninni í gær. Jenis var ráðherra mennta- og utanríkismála en honum var fyrst og fremst vikið vegna afstöðu hans til réttinda samkynhneigðra. Hann lögmann Færeyja fara frjálslega með sannleikann varðandi ástæður brottvikningu hans úr landsstjórninni í gær.

Jenis segir í samtali við Kringvarpið langt í frá að hann hafi farið út fyrir mörk en að brottreksturinn nái ekki að draga úr honum móðinn. Hann kveðst stoltur af störfum sínum en segist ekki geta gert málamiðlanir þegar komi að velja milli guðs eða manna.

Jenis segir útilokað trúar sinnar vegna að biðja biskupa og presta að tilgreina konu sem föður barns.

Lögmaðurinn Bárður á Steig Nielsen ákvað að færa hluta málefna kirkjunnar til Magnusar Rasmussen umhverfis- viðskipta- og iðnaðarráðherra, vegna þess viðhorfs og sagði að Jenis hafi hvatt Magnus til að vinna gegn framgangi málsins. Miðflokkurinn dró sig út úr ríkisstjórn vegna málsins.

Jenis av Rana segist hins vegar aðeins hafa sagt í viðtali að hann vonaðist til að Magnus færi að fordæmi sínu, það væri allt annað en biðja annan ráðherra að hlýða ekki tilmælum lögmannsins.

Hann bætti svo við að Bárður lögmaður ætti að láta eiga sig að kasta steinum úr glerhúsi, og vísaði þar til andstöðu tveggja stjórnarþingmanna við tillögu um fæðingarorlof fyrir samkynja foreldra.