Jenis av Rana rekinn af ráðherrastóli

08.11.2022 - 13:18
Mynd með færslu
 Mynd: KVF
Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, vék Jenis av Rana í dag úr embætti ráðherra mennta- og utanríkismála. Ummæli Rana í gær um að það samræmdist ekki færeyskum grunngildum að samkynhneigðir byggju saman virðist hafa gert útslagið. Nielsen segir að þó svo hann hafi rekið Rana, formann Miðflokksins, úr embætti ráðherra hafi hann ekki vikið Miðflokknum úr stjórn.

Jenis av Rana hefur löngum verið umdeildur vegna afstöðu sinnar til samkynhneigðra. Í síðasta mánuði boðuðu stjórnarandstæðingar vantrauststillögu á Jenis eftir að hann sagðist ekki geta stutt samkynhneigðan einstakling í embætti forsætisráðherra. Íslendingar kynntust Jenis av Rana ef til vill flestir árið 2010 þegar hann neitaði að sitja kvöldverð með Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, og konu hennar í opinberri heimsókn Jóhönnu til Færeyja.

Bárður á Steig Nielsen segist hafa rekið Jenis av Rana vegna þess að hann hafi síðast í gær hvatt ráðherra til að fara gegn stjórnarstefnu. Það snýst um frumvarp um rétt samkynhneigðra mæðra og barna þeirra. Rana andmælti því frumvarpi. Áður hefur hann talað gegn stjórnarstefnu í covid-málum, sérstaklega þegar kemur að bólusetningum.

Bill Justinussen, samflokksmaður Jenis av Rana, sagði í samtali við Kringvarpið að hann væri reiðubúinn að taka við af honum sem ráðherra. Fyrst yrði flokkurinn þó að fara yfir stöðuna og ákveða næstu skref.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV