Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Í höll svefnsins

Mynd:  / 

Í höll svefnsins

08.11.2022 - 12:25

Höfundar

„Þú sefur vel í skammdeginu, því það er viti sem snýr ljósi sínu um fjarska myrkursins og dreggjar af birtu hans rata inn í svefnherbergi til þín, aðeins smáskammtur af ljósageislum í senn.“ Örn Elvar Arnarson ferðast um dularfullar víddir í hugleiðingu sinni um skammdegið í Víðsjá.

Örn Elvar Arnarson skrifar:

Glös skreytt fingraförum þinga með leirtauinu í vaskinum. Dropar hver öðrum líkir leka úr krananum, það er lækjarniður frá rafmagninu í veggjunum, ísskápurinn ræskir sig óþarflega hátt. Undir morgun verður fótum dinglað fram af eldhúskrók, gluggi er opnaður upp á gátt og köldum andblæ, kröftugum gust frá nýjum vetri, er boðið inn í húsakynni þín.

Þú sefur vel í skammdeginu, því það er viti sem snýr ljósi sínu um fjarska myrkursins og dreggjar af birtu hans rata inn í svefnherbergi til þín, aðeins smáskammtur af ljósageislum í senn. Þeir lenda á vegg og verða að andartaki þar sem kostur gefst á að virða fyrir sér svipmót þeirra sem vaka yfir þér. Þú ert að vakna, hurð leigubíls er skellt ekki svo ýkja langt í burtu, dagsljósslampinn logar nú eins og búddisti í björtu báli. Í þessari höll svefnsins eru raddir, heimilislegur kliður berst frá stofunni, þar fólk er að tala saman um eitthvað sem þú hefur ekki hugmynd um. Þetta er á framandi tungu eins og fallegt ljóð frá Suður-Ameríku sem þú heldur að sé um villta hunda. Það er ekkert óvenjulegt að það veki undrun, jafnvel spurningar að heyra raddir sem þú reynir að bera kennsl á, reynir að skilja hvað sé á seiði þarna frammi, án þess að stíga úr þinni rekkju, er þetta ef til vill sambýlisfólk þitt? Eða látnir ættingjar og ástvinir? Fólkið sem vakir yfir þér, eru þau gengin aftur og loksins komin í morgunkaffið, ævi of seint, eru þetta óboðnir gestir, sjórekið fólk sem hefur farið heimilisvillt, helgarvofur, annað eins hefur nú gerst.

Nei, hér er allt er eins og það á að að vera, börnin þín hrjóta eins og grísir úr sígildu ævintýri og heimta saklausa drauma úr blómknöppum sínum en eftir því sem þú púslar fleiri brotum af tilvist þinni saman þar sem þú kúrir þig undir sænginni, liggjandi á bakinu, bara almennur borgari með höfuðið á heilsukoddanum sínum, einn af þessum borgurum sem vaknar í spánnýjan vetrarmorgun og nýtur þess að vakna og það hægt. Frá götunni má heyra bergmál hárra hæla. Það fer ekki á milli mála að það sem fram fer í stofunni er úr framhaldsþætti sem gærkvöldið geymir, kunnuglegur talandi yfirvarðstjórans á slökkvistöð númer eitthvað í Chicago er afgerandi, þetta er mikil týpa, sem lætur nú gaminn geisa og messar yfir undirfólki sínu, hann vill halda aga. Þessar persónur hafa fest sig í sessi í tilverunni enda á dagskrá vikulega í ríkissjónvarpinu, alltaf á eftir tíu fréttum og veðri, hvað var annars að frétta í þeim, spyrð þú þig, undir sænginni Hvað var að frétta þegar þú naust þín í þögn síðkvöldsins og börnin voru sofnuð, og þú naust félagsskapar við fólk á skjánum. Líklega var bara skotárás í Bandaríkjunum, aldraður bóndi endurheimti pípuna sína eftir 23 ára aðskilnað, hann hafði tapað henni í Bændahöllinni þegar hann gisti þar tvær nætur, hún kom í leitirnar nú á dögunum, einhver var ráðinn bæjarstjóri, tvennt lést í skógareldi, lögregla beitti piparúða, það er nægur fiskur í sjónum samkvæmt HAFRÓ, fólk sem aldrei hafði dansað og tjúttað gerði það á Artic Circle-ráðstefnunni í Hörpu og auðvitað voru það þessi rauðu norðurljós sem liðuðust í sinni fullkomnu þögn yfir norðurhluta Finnlands, já og þau marka víst upphaf þriðju heimsstyrjaldarinnar, sýndar voru myndir af bylgjandi sveigjum þeirra á himninum á meðan fréttatíminn rann sitt skeið. Brunaliðið í sjónvarpinu þínu er fyrst á fætur, komið upp fyrir allar aldir, þér heyrist þau vera strax byrjuð að ræða slælegar eldvarnir í almannarými í einu af fátækari hverfum Chicago-borgar, þú heldur að þú hafir aldrei komið þangað en munt líkast til aldrei gera það. Hugrakki reykkafarinn sem er í forgrunni sögunnar er ótvírætt og efst á baugi þessi misserin eftir þá hetjudáð sem hann vann í byrjun síðasta þáttar, þegar hann fórnaði heilsu sinni á frívakt og forðaði sértækum aðstoðarhundi nágranna síns sem þjáist af sykursýki út af reykfylltu heimili þeirra, sem þegar betur var að gáð, reyndist vera lítið annað en bara asbest á asbest ofan, og uppfyllti engin skilyrði fyrir mannabústaði, óvistlegt og ekki fólki bjóðandi. Hann leggur til að efna eigi til samskota fyrir nágrannann sinn, vill tryggja honum áhyggjulaust ævikvöld. Standa fyrir fjáröflunarhafnaboltaleik kannski? Það er ekki annað en hægt en að hrífast með þó þú liggir í öðru herbergi og vitir ekki almennilega hvort þú sért vakandi eða sofandi þegar reykkafarinn heldur innblásna ræðu til að þjappa samstarfsfólki sínu saman, stappa í það stálinu svo það hafi dug til að ráðast í óhefðbundnar og fífldjarfar aðgerðir. Hann ber ekki bara súrefniskút á sínum herðum eða slasað fólk með reykeitrun, hann er fyrirliði slökkvistöðvarinnar í hafnaboltadeild viðbragðsaðila þarna í borginni. Og á vellinum í þeirri íþrótt er hann eins og í sínu starfi, þrautgóður á raunastund. Þér heyrist þar sem þú liggur í rúminu og fylgist með dagsljósslampanum auka styrk sinn eftir því sem tekur að grafa í morgunsárinu, að öll von sé úti og útlitið sé vægast sagt skelfilegt fyrir ungu barnshafandi konuna sem virðist hafa sætt sig við óumflýjanleg örlög sín, gengist dauðanum á hönd í skíðlogandi háhýsinu þar sem hún vinnur langa daga, til að brauðfæða sig í hörðum heimi þessarar nöpru borgar. En sína síðustu krafta notar hún til að reka upp öskur, öskur sem er svo kraftmikið lífsmark að það á upprunna sinn í spönginni, hverjum einasta vöðva og öllum þeim líffærum sem einn líkami hefur fram að færa, kraftur þess er svo kynngimagnaður að það mun óma í höfðum viðbragðsaðila í næsta þætti. Úti í vetrarrökkrinu er maður úti að ganga með hund, þetta er kjölturakki í endurskinsvesti, gangstéttarhellurnar undir þeim glitra eins og stjörnur í næturfrostinu, í næstu íbúð er barn sem grætur og það verður fljótt sefað. Þú ferð á fætur og í svipinn rámar þig ekki í hvenær þú komst síðast nakin fram, en þú stikar á nývöknuðum fótunum, staulast eftir ganginum, á leið til stofunnar sem er á sama stað og í gær og daginn þar áður, og svo lengi sem elstu menn muna, þú gengur á hljóðin, sem glamra um vistaverur þínar, raddirnar, snarkið í eldtungunum, öskur óléttu konunnar. Vatnselgur er á götum Chicago, lögreglan lokar á umferð, fólk biður bænir fyrir aftan strengda gula borða, oh my god segir það óðamála en þaulþjálfuð samskipti drukkna í talstöðvum. Nú er að duga eða drepast, það má engan tíma missa svo þú rekur inn nefið og þarna í þinni eigin stofu hittir þú þig fyrir sitjandi á sófanum að brjóta saman sama þvott og gengið var frá í gær, para saman sömu sokka sem orðið höfðu viðskila í dagsins önn. Hárauð forgangsljós í erlendri borg glampa í augum þínum, gljáandi amerískir brunabílar, leikfang úr draumi bernskunnar, krómið á þeim speglar leikmynd af borg sem brennur. Þú hvíslar nafn sem þú manst ekki.

Örn Elvar Arnarson flutti pistill sinn í Víðsjá á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Of stór í litlum bíl að ræða heim ljóðsins

Pistlar

Allt er farið af stað, hjólin snúast, lestin brunar

Pistlar

Að gráta á rúntinum er ekkert til að skammast sín fyrir

Pistlar

Síðasta bensínstöð sinnar tegundar kvödd