Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Guðlaugur ætlar ekki að draga sig í hlé

Mynd: Ragnar Visage / RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson segir það vonbrigði að hafa tapað í formannskjöri, en hann uni niðurstöðunni og hafi engin áform um að hætta á þingi eða í ríkisstjórn. „Ég segi nákvæmlega það sama eftir og fyrir kosningar.“

Guðlaugur laut í lægra haldi fyrir Bjarna í formannskjöri, en hann hlaut rúm 40% atkvæða gegn 59% Bjarna. Guðlaugur telur Sjálfstæðisflokkinn engu að síður koma sameinaðan af fundinum og sterkari en áður.

Mynd: Ragnar Visage / RÚV

Þegar Bjarni Benediktsson hafði flutt sigurræðu sína, steig Guðlaugur í pontu. Í ræðu sinni lagði Guðlaugur áherslu á að flokkurinn þyrfti að standa saman og flykkja sér að baki formanninum.

Hann væri stoltur af öllum þeim sem hefðu stutt hann og hvatt áfram. Hann sagði að með framboði sínu hefði hann lagt áherslu á að flokkurinn gæti gert betur og þyrfti að styrkja sig. „Þessi landsfundur er fyrsta skrefið í því.“

Hann lauk ræðunni á að hvetja Sjálfstæðismenn til að standa saman og vinna að framgangi sjálfstæðisstefnunnar. „Þegar við gerum það þá stöðvar okkur ekkert.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV