Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

UNICEF fordæmir en stjórnvöld ítreka réttmætar aðgerðir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
UNICEF á Íslandi fordæmir að ungmenni sem kom hingað til lands sem fylgdarlaust barn hafi verið vísað úr landi skömmu eftir að það varð sjálfráða. Stjórnvöld ítreka að allt hafi verið gert samkvæmt lögum við brottvísanir flóttafólks í vikunni.

Aðfaranótt fimmtudags voru fimmtán hælisleitendur sendir til Grikklands með leiguflugi af þeim tuttugu og átta sem ætlunin var að senda brott. Í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi segir að meðal þeirra sem var fluttur burt var drengur sem kom til Íslands sem fylgdarlaust barn. UNICEF bendir á að fylgdarlaus börn eigi rétt á þjónustu barnaverndar og lögum samkvæmt skuli börn alltaf njóta vafans og réttindi þeirra virt í hvívetna.

UNICEF ítrekar fyrri áköll um að hérlend stjórnvöld láti af þeirri iðju sinni að senda hælisleitendur og flóttafólk til Grikklands. Ljóst sé að aðstæður þar séu ómannúðlegar og fordæmalausar innan Evrópu. 

Læknir, túlkur og eftirlitsaðili með í för

Dómsmálaráðuneytið birti tilkynningu á vef stjórnarráðsins í gærkvöld þar sem farið var yfir aðgerðirnar aðfaranótt fimmtudags. Þar segir að brottflutningur fólksins hafi farið fram á grundvelli gildandi laga um útlendinga, laga um meðferð sakamála og lögreglulaga. Með í för hafi verið læknir, túlkur og eftiritsaðili sem hlotið hefur sérstaka þjálfun hjá Landamærastofnun Evrópu.

Þá er vísað í úrskurði kærunefndar útlendingamála varðandi aðstæður í Grikklandi, þar sem kemur fram að vernd flóttamanna þar í landi teljist virk alþjóðleg vernd og hafi það mat verið staðfest af dómstólum hér á landi. Þannig brjóti endursendingar fólks til Grikklands ekki í bága við mannréttindasáttmála Evrópu.

Tekið er fram að lögregla hafi heimild til að beita þvingunarúrræðum til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um frávísun eða brottvísun. Vakin er athygli á að hægt er að leita til nefndar um eftirlit með lögreglu vegna starfshátta lögreglu.

Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra, segir við Morgunblaðið að þrátt fyrir valdbeitingu hafi lögregla ekki beitt ofbeldi. Hins vegar hafi verið ráðist að lögreglumönnum við störf sín.