Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ekki skárra að flóttafólk hírist hér í mygluðu húsnæði

05.11.2022 - 12:50
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, telur að íslensk stjórnvöld eigi að beina kröftum sínum í að bæta aðbúnað flóttafólks á Grikklandi frekar en að taka inn fleira fólk hingað til lands. Þá sé aðbúnaður flóttafólks á Íslandi ekki mikið skárri og ekki til húsnæði fyrir flóttafólk.

„Hér er búið að rigga upp mygluðu húsnæði og einhverjum kömrum fyrir þetta fólk. Það blasir við að hingað streyma mörg þúsund flóttamenn á þessu ári. Það er algjört yfirfall hér,“ sagði Sigríður en hún var meðal gesta Vikulokanna á Rás 1 í morgun. Ekki sé ástæða til að draga úr fjölda brottvísana.

Þessu andmælti Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar. Hann sagði ekkert taka á móti fólki sem er sent til Grikklands, hvorki húsnæði, atvinna né önnur tækifæri. Réttindi flóttafólks í landinu væru lítil sem engin enda ráði Grikkir ekki við fjöldann sem þar dvelur. „Réttindin eru til í orði, en í veruleikanum er ekkert sem grípur þau.“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fór sömuleiðis hörðum orðum um brottvísanirnar. Þá sagði hún brotið gegn mannréttindum þess fólks sem enn beið niðurstöðu mála sinna fyrir kærunefnd útlendingamála og héraðsdómi.

Þar á meðal er fimm manna fjölskylda frá Írak en aðalmeðferð í máli þeirra átti að fara fram eftir tæpar tvær vikur, 18. nóvember. 

Dómurinn lítur svo alvarlega á þetta mál að lögmennirnir voru kallaðir inn í dómsal með hraði þegar þetta hafði átt sér stað,“ sagði Helga Vala og sagði það til marks um að héraðsdómur áttaði sig á alvarleika þess að brotið væri gegn mannréttindum fólks með því að leyfa fólki ekki að fá réttláta málsmeðferð fyrir dómi.