Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Brýnt að ráðast í úrbætur við móttöku barna

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
„Þetta er líklega sá málaflokkur sem þarf á hvað mestum úrbótum að halda,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, um móttöku á fylgdarlausum börnum á flótta. Einn þeirra sem sendur var úr landi aðfaranótt fimmtudags kom hingað sem fylgdarlaust barn, en var nýorðinn sjálfráða þegar hann var sendur úr landi.

UNICEF er meðal fjölmargra stofnana og samtaka sem gagnrýna aðgerðir yfirvalda við brottvísun fimmtán umsækjenda um alþjóðlega vernd aðfaranótt fimmtudags. Börn eigi rétt á að hagsmunir þeirra séu í hávegum hafðir þegar ákvarðanir um þau eru tekin og þau eigi að njóta vafans. „Þau eiga rétt á úrræðum barnaverndar og eiga rétt á því að þau úrræði séu framlengd þangað til þau hafa tækifæri til sjálfstæðs lífs. Þetta teljum við ekki hafa verið meðferð málsins í þessu tilviki, alls ekki,“ segir Birna.

Birna segir UNICEF hafa átt góð samtöl við stjórnvöld um að bæta móttöku fylgdarlausra barna, en langt sé í land í þeim málaflokki. „Við erum alls ekki að standa okkur nógu vel í móttöku fylgdarlausra barna og ég held að þetta dæmi sýni hversu brýnt það er að ráðast í það verkefni. Það kostar ekki mikinn pening, það kostar bara viljann til verka,“ segir Birna. Öll börn hafi jafnan rétt og íslenskum stjórnvöldum beri að tryggja að öll börn hér á landi njóti sömu réttinda. 

Dómsmálaráðuneytið birti tilkynningu á vef stjórnarráðsins í gærkvöld þar sem farið var yfir aðgerðirnar aðfaranótt fimmtudags. Þar segir að brottflutningur fólksins hafi farið fram á grundvelli gildandi laga um útlendinga, laga um meðferð sakamála og lögreglulaga. Með í för hafi verið læknir, túlkur og eftiritsaðili sem hlotið hefur sérstaka þjálfun hjá Landamærastofnun Evrópu. Þá er vísað í úrskurði kærunefndar útlendingamála varðandi aðstæður í Grikklandi, þar sem kemur fram að vernd flóttamanna þar í landi teljist virk alþjóðleg vernd og hafi það mat verið staðfest af dómstólum hér á landi. Þannig brjóti endursendingar fólks til Grikklands ekki í bága við mannréttindasáttmála Evrópu.