Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þörf Úkraínu fyrir loftvarnir mikil

epa09546913 National Security Advisor Jake Sullivan speaks to the media about President Biden's upcoming trip to Glasgow for the UN Climate Summit from the White House Press Briefing Room in Washington, DC, USA, 26 October 2021.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA
Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, Jake Sullivan, sagði í dag að Úkraína hefði brýna þörf fyrir loftvarnir í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi eftir aðför Rússa að orkuinnviðum landsins.

Rússar hafa undanfarnar vikur ráðist á innviði í Úkraínu með eldflaugum og írönskum drónum. Sullivan sagði Bandaríkin gera sér fulla grein fyrir mikilli þörf landsins fyrir loftvarnir í ljósi þessa.

Þetta kom fram í dag á blaðamannafundi í Kyiv, höfuðborg Úkraínu, en Sullivan er þar í opinberri heimsókn. 

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sakaði Rússa um að ætla sér að „frysta“ Úkraínumenn til hlýðni, eftir að hafa mistekist á vígvellinum, eftir fund utanríkisráðherra G7 ríkjanna í Þýskalandi. 

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, Pentagon, tilkynnti í dag um nánari útfærslur á hernaðaraðstoð sem Bandaríkin ætla að veita Úkraínu, til dæmis með endurbótum á T-72 skriðdrekum og HAWK eldflaugum. Hernaðaraðstoðin nemur 400 milljónum dollara.

Landstjórn Rússa í hernumdu borginni Kherson í Úkraínu hefur sagt íbúum borgarinnar að yfirgefa hana. Úkraínumenn nálgast Kherson óðum og stefna á að ná yfirráðum til baka. Kherson er ein borganna á þeim svæðum sem Rússar segjast hafa innlimað, með atkvæðagreiðslum sem hafa verið harðlega gagnrýndar um allan heim.