Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Rússar hóta að skjóta liðhlaupa

04.11.2022 - 13:54
epa09962096 A picture taken during a media tour organized by the Russian Army shows Russian servicemen standing guard near the Kakhovka Hydroelectric Power Plant (HPP) on the Dnieper River in Kakhovka, near Kherson, Ukraine, 20 May 2022 (issued 21 May 2022). The Kakhovka HPP is the main source of energy supply to the south of Ukraine, as well as the most important strategic facility.  EPA-EFE/SERGEI ILNITSKY
 Mynd: EPA-EFE
Rússar hafa líklega sett saman sérstakar hersveitir sem hóta að skjóta eigin hermenn sem reyna að flýja af stríðsvettvangi í Úkraínu, segir varnarmálaráðuneyti Bretlands. Fjórar og hálf milljón Úkráinumanna er nú án rafmagns vegna árása Rússa. Þrýst er á Rússa að heimila kornflutninga að nýju.

Sjö helstu iðnríki heims, sem hafa fundað um efnahagsmál í Þýskalandi síðustu daga, sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í morgun þar sem skorað er á Rússa að framlengja samning um kornflutninga frá Úkraínu um Svartahaf. Slíkt sé algjörlega nauðsynlegt. Þá eru ríkin jafnframt sammála um að samhæfðar aðgerðir þurfi til að byggja upp rafmagns- og vatnleiðslur eftir árásir Rússa.

Rússar hafa einmitt lagt sérstaka áherslu á að ráðast á rafleiðslur, raforkuver og tengivirki í Úkraínu. Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu sagði í ávarpi sínum í gærkvöld að nú væru fjórar og hálf milljón Úkraínumanna án rafmagns, sem er yfir tíu prósent íbúa. 

Zelensky sagði árásirnar á rafmagnsinnviði vera daglegt brauð og slík hryðjuverk hljóti að vekja sterk viðbrögð hjá alþjóðasamfélaginu. Til að mynda er búið að slökkva á öllum kjarnaofnum í kjarnorkuverinu í Zaphorizhzhia vegna þess að raflínurnar þangað eru skemmdar. Nota hefur þurft varaafl til að kæla ofnana og koma þannig í veg fyrir kjarnorkuslys.

Breska varnarmálaráðuneytið greindi frá því í morgun að Rússar væru að öllum líkindum að setja saman sérstakar hersveitir sem hóta að skjóta eigin hermenn sem hörfi af vettvangi. Þetta sýni að andinn meðal hersveita Rússa sé orðinn afar slæmur. Heimild sé til að drepa þessa hermenn eftir að þeir hafi verið varaðir við.