Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Paul Pelosi útskrifaður af sjúkrahúsi

FILE - Speaker of the House Nancy Pelosi, D-Calif., and her husband, Paul Pelosi, arrive at the State Department for the Kennedy Center Honors State Department Dinner, Dec. 7, 2019, in Washington. House Speaker Nancy Pelosi’s husband, Paul, was “violently assaulted” by an assailant who broke into their San Francisco home early Friday, Oct. 28, 2022, and he is now in the hospital and expected to make a full recovery, said her spokesman, Drew Hammill. (AP Photo/Kevin Wolf, File)
 Mynd: AP - RÚV
Paul Pelosi hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi í San Francisco. Hann er eiginmaður Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og slasaðist eftir fólskulega árás á heimili þeirra hjóna í síðustu viku.

David DePape, maðurinn sem réðist inn á heimilið, er í varðhaldi og hefur lýst fyrirætlunum sínum um að ræna Nancy Pelosi og halda henni í gíslingu. Hann er sagður hafa ætlað að veita henni alvarlega líkamlega áverka segði hún ekki sannleikann.

Lögreglumenn sem handtóku DePape hafa eftir honum að ætlunin hafi ekki verið að meiða Paul Pelosi. Sömuleiðis lýsti hann því yfir að ætlun hans hefði verið að ráðast að fleiri stjórnmálamönnum vegna þess sem hann kallar lygarnar í Washington.

Hann lagði til Pauls Pelosi með hamarshöggum í höfuðið en eiginkona hans var að heiman þegar maðurinn lét til skarar skríða. DePape hefur verið ákærður í nokkrum liðum, þar á meðal fyrir tilraun til manndráps. 

Árásin hefur orðið uppspretta ýmiss konar flugufregna á samfélagsmiðlum, meðal annars um meint samband milli árásarmannsins og Pauls Pelosi sem allar hafa verið hraktar.