Í húsi einu á Egilsstöðum hljóma jólalög og það er handagangur í öskjunni við að pakka inn jólagjöfum. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið enda þarf að koma gjöfunum alla leið til munaðarlausra barna í Úkraínu. Systurnar Sigrún Hólm og Kristín Hólm þurftu að raka saman afgöngum af jólapappír um allan bæ enda ákváðu þær að vera stórtækar í ár.
,,Ég var að kaupa skó á fjölskylduna og ákvað bara að byrja að safna þessum kössum. Ég vissi af verkefninu, hafði tekið þátt í því áður. Svo bara allt í einu var ég komin með tíu skókassa þannig að ég hugsaði bara: Já já, við setjum bara í alla kassana. Þannig að við viljum bara láta gott af okkur leiða," segir Sigrún Hólm Þórleifsdóttir.
Og þegar kassarnir voru tilbúnir urðu þeir endanunm ellefu og þá lá leiðin í safnaðarheimili Egilsstaðakirkju, þar sem móttakan fór fram.
,,Þessi kassar sem er verið að safna hér þeir eru á leiðinni til Úkraínu á vegum KFUM og KFUK á Íslandi í samstarfi við KFUM í Úkraínu. Þeir fara á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og fleiri staði í Úkraínu þar sem þörf er á glaðningi. Jólaglaðningi fyrir börn sem jafnvel fá enga aðra jólagjöf, í flestum tilfellum líklega. Þetta vekur án efa mikla gleði eins og sjá má af myndum frá afhendingunni. Í kassana eru gefendurnir beðnir að setja hluti úr nokkrum flokkum; setja einhver leikföng, ritföng, snyrtidót, tannbursta, tannkrem og sápu, fatnað og sælgæti og svo smá aur til að hjálpa til við flutninginn út. Það er nú enn hægt að raða í kassa annars staðar á landinu líka. Við erum að taka á móti kössum hér í dag á Egilsstöðum og þeir fara til Reykjavíkur fljótlega. En síðan verður lokaskiladagur í Reykjavík 12. nóvember. Þannig að það er hægt að koma kössum líka þangað, hjá KFUM og KFUK á Holtavegi," segir Þorgeir Arason, sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli.
Nálgast má leiðbeiningar og upplýsingar um móttöku skókassa á www.kfum.is
Fjalla var um málið í sjónvarpsfréttum. Horfa á frétt