Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Reynir sekur um alvarlegt siðareglubrot

03.11.2022 - 15:46
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands telur að þeir fyrirvarar sem Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, setur við fréttir sínar um athafnamanninn Róbert Wessmann séu ekki nóg. Hann hafi því brotið gegn siðareglum Blaðamannafélagsins með á þriðja tug frétta um Róbert sem birtust á vefmiðlinum. Annað brotanna er mjög alvarlegt en þetta er í fyrsta sinn frá 2005 sem kveðinn er upp úrskurður um mjög alvarlegt brot.

Kærurnar eru hluti af langri deilu Reynis og Róberts þar sem Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alvogens og samstarfsmaður Róberts til margra ára, kemur einnig við sögu. Halldór hefur borið Róbert þungum sökum í yfirlýsingum til fjölmiðla.

Þetta er síður en svo í fyrsta skipti sem Róbert kærir Reynir til siðanefndarinnar. Síðanefndin komst að þeirri niðurstöðu í maí að Reynir væri vanhæfur til að skrifa fréttir um Róbert eftir að í ljós kom að Reynir þáði pening frá Halldóri fyrir að skrifa bók um Róbert. 

Kærurnar tvær nú snúast annars vegar um 28 fréttir sem birtust um Róbert á mannlif.is frá mars til ágúst. Þær fjölluðu meðal annars um innbrot á skrifstofu Mannlífs sem vakti mikla athygli. Hin kæran var vegna fréttar sem birtist í september og sagði frá bardagaherbergi Mjölnis sem Róbert átti að hafa láta lokað. 

Reynir sagði vegna fyrri kærunnar að aðgerðir Róberts gegn honum væru fordæmalausar. Hann sendi siðanefndinni tóninn í svörum sínum við seinni kærunni, sagði nefndina hafa lagt sig í líma við að ganga erinda auðmanna með sleggjudómum. Hún bryti og beygði eigin úrskurði og reglur samkvæmt slúðri. 

Siðanefnd telur að sumar af þessum fréttum feli í sér alvarlegt brot gegn siðareglum Blaðamannafélagsins. Þeir fyrirvarar sem Reynir hafi sett við einhverjar þeirra breyti engu um brot hans.

Róbert krafðist þess einnig að félagsfundur yrði haldinn í Blaðamannafélaginu þar sem Reynir yrði ávíttur. Siðanefnd sagðist ekki geta tekið afstöðu til þess enda væri það stjórn Blaðamannafélagsins sem tæki ákvörðun um slíkt.