Ljúflingslögin nýju

Hjálmar litu við í kaffi hjá Júníusi Meyvants í Vestamannaeyjum og tók upp nýtt lag.
 Mynd: Hjálmar

Ljúflingslögin nýju

03.11.2022 - 17:09

Höfundar

Guru er þriðja breiðskífa Júníusar Meyvant. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Þar kom að því að Arnar Eggert tæki Júníus Meyvant í sátt. Ég var ekki par sáttur við þær afurðir sem ég hef rýnt í hingað til, þ.e. frumburðinn Floating Harmonies (2016) og svo plötu tvö, Across the Borders (2019). Sýnu sáttari var ég þó við síðustu plötu, viss herðing í gangi þar og stíllinn að verða mótaðri. Plötunum rústaði ég semsagt ekki, a la „Roach“, svo ég vísi kankvíslega í nýleg skrif um hana Björk okkar.

Þessi plata hér, Guru, er besta plata Júníusar Meyvants til þessa. Á hverju byggi ég það? Er ég að mildast og meyrna (jú, vissulega. En...)? Er ég loksins búinn að fatta þetta? Nei, ég held að það sé ekki málið. Er tónlistin og útfærsla öll að verða meira sannfærandi? Já, ég held að það sé málið fyrst og síðast.

Skapalónið er annars svipað og hefur verið. Löturhæg, mild lög sem draga frá sálartónlist Suðurríkjanna og einnig er leitað í aðra tónlist frá sama svæði, kántríið. Línan er í raun áreynslulaus kunnugleiki. Þú „þekkir“ öll þessi lög, bara vegna þess að þú hefur heyrt Van Morrison, Dusty Springfield og (bætið við eftir smekk) í útvarpinu alla ævina. Spilamennskan, sem er hnökralaus út í gegn, styður við þessa upplifun. Útsetningar og hljóðmynd sömuleiðis. Bassinn er feitur og áberandi, strengirnir sykursætir og bakraddirnar allar saman „réttar“. Platan rúllar svona áfram, án undantekninga (það er reyndar ein undantekning, komum að því síðar).
Ferill Júníusar hefur frá degi eitt verið miðaður við útlönd og ég man að þegar ég sá fyrsta verkið hans, EP plötu frá 2015, var ég hreint ekki viss um hvað í gangi væri. Var þetta Íslendingur? Eða? Ég var hrifinn af því að það var greinilega búið að reikna hlutina vel áfram áður en lagt var í hann. Ekki var ég nú hrifinn af innihaldinu hins vegar (sjá upphafslínur) en þetta hljómaði mjög svo erlendis, í takt við það sem OMAM og Kaleo hafa t.d. verið að gera, hvar erfitt er að rekja þráðinn til heimahaganna.

Það er sosum óþarfi að týna út einstök lög á Guru, heildarmyndin er þétt og góð eins og ég nefni. Lag eins og „Drifting“ ber nafn með rentu, hljómagangurinn vel almennur og lagið svona rekur áfram á tónbundnum reiða, hálfgert djamm eiginlega. En. Gott djamm. „High Heels“ er verandarleg kántrístemma, ljúf og þægileg, og það þarf alls ekki að selja kántríboltanum mér það sérstaklega. Gott stöff. Eitt lag sker sig svo frá öllu saman, lokalagið „Undravera“. Lag með íslenskum texta, nægilega ógreinilegum þó, þannig að það fellur þannig lagað við rest. Nokk undarlegt, en ekki um of. Sérkennilegt „coda“ eða eftirspil, afskaplega „íslenskt“ í raun, með karlakór og látum. Ég held að þetta sé samt ekki vísir að einhverri stórkostlegri u-beygju á næstu plötu, meira bara svona kerknislegur lokahnútur, kannski til að gefa til kynna að þrátt fyrir notalegt, umlykjandi heildarrennsli er Júníus ekki alveg allur þar sem hann er séður.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

„Sefur þú nú sætt og rótt, sveipuð í rökkri og yl“

Popptónlist

Svellkaldar sálarstemmur

Tónlistargagnrýni

Aðsóps- og tilkomumikið en hvað svo?