Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Biður mótmælendur um að opna þjóðvegina

03.11.2022 - 00:48
Erlent · Brasilía · Erlent
epa10279802 Out-going Brasilian president Jair Bolsonaro, speaks to the media about the results of the Presidential elections, Brasilia, Brazil, 01 November 2022. Bolsonaro, assured that he ‘will continue to be faithful to the constitution’.  EPA-EFE/Joedson Alves
 Mynd: EPA
Jair Bolzonaro, fráfarandi forseti Brasilíu, hefur beðið stuðningsmenn sína um að opna þjóðvegina og halda mótmælum sínum áfram annars staðar. Stuðningsmenn Bolzonaro hafa kallað eftir íhlutun hersins til að halda honum í embætti.

Bolzonaro viðurkenndi ekki beinlínis úrslit kosninganna, þar sem Luiz Inacio Lula da Silva bar nauman sigur úr býtum, þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í gær. Hann heimilaði þó að undirbúningur valdaskipta hæfist. Hann óskaði nýjum forseta ekki til hamingju. 

Bolzonaro segir mótmælin til marks um reiði og óréttlætistilfinningu vegna framkvæmdar kosninganna. Mótmælin séu lögmæt, en lokun þjóðvega sé ekki partur af eðlilegum mótmælum. 

„Önnur mótmæli sem nú eiga sér stað um alla Brasilíu á torgum, þau eru hluti af lýðræðinu. Þeim er það frjálst.“

Stuðningsmenn Bolzonaro hafa mótmælt í þrjá daga samfellt og enn virðist ekkert lát þar á. Þeir hafa safnast saman fyrir utan stofnanir hersins í stærstu borgum landsins og lokað þjóðvegum í meira en helmingi héraða landsins. Þúsundir söfnuðust saman við herstöð í stærstu borg landsins, Sao Paulo, og kröfðust þess að komið yrði í veg fyrir valdaskiptin.

Mótmælin urðu ofbeldisfull strax í upphafi, þegar ökumaður á mótorhjóli keyrði á hóp af fólki í bænum Mirassol. Í það minnsta sjö særðust. Stuðningsmenn Bolzonaro voru með ógnandi tilburði við blaðamenn í Sao Paulo. Í Santa Catarina náðust mótmælendur á myndband framkvæma nasistakveðju. 

Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir
Fréttastofa RÚV