Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Niðurstöðurnar styrkja stöðu Mette Frederiksen

epa10280635 Denmark's Prime Minister and head of the the Social Democratic Party Mette Frederiksen (C) arrives to the election night at the Social Democratic Party in Christiansborg, Copenhagen, Denmark, 01 November 2022.  EPA-EFE/Nikolai Linares  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Stjórnmálagreinandi danska ríkisútvarpsins segir augljósar ástæður fyrir því að forsætisráðherra kom fram sem sigurvegari þegar úrslit þingkosninganna í landinu lágu fyrir snemma í nótt. Hann segir niðurstöðurnar styrkja stöðu sitjandi forsætisráðherra í komandi stjórnarmyndunarviðræðum.

„Mette Frederiksen er sigurvegari kosninganna, bæði sem flokksformaður og forsætisráðherra,“ segir stjórnmálaskýrandinn Jens Ringberg.

Rauða blokkin með Jafnaðarmannaflokk Frederiksen í broddi fylkingar tryggði sér minnsta mögulega meirihluta eða níutíu þingsæti á elleftu stundu. Tveir þingmenn frá Grænlandi og einn frá Færeyjum tilheyra stjórnmálaflokkum á vinstri vængnum. 

Þó er ljóst að dagar núverandi ríkisstjórnar eru taldir. „Þegar Mette Frederiksen skilar umboði sínu í dag hefst nýr þáttur í dönskum stjórnmálum,“ segir Ringberg.

 

Forsætisráðherrastóllinn ekki sjálfgefinn

Þrátt fyrir sterka stöðu segir hann ekki sjálfgefið að hún verði forsætisráðherra áfram. Frederiksen þurfi að leita hófanna meðal þeirra flokka sem líklegast er að hafi meirihluta að baki sér á þinginu. Þeirra á meðal sé Lars Løkke Rasmussen og Móderatarnir hans. 

Takist Frederiksen ekki ætlunarverk sitt færir Margrét drottning öðrum umboð til stjórnarmyndunar en Ringberg kveðst bjartsýnn á að ný ríkisstjórn verði mynduð fyrir jól. Ekki sé þó alveg ljóst hvernig sú stjórn verði saman sett.

Ringberg bendir á mikinn sigur Bandalags frjálslyndra undir forystu Alex Vansplagh auk flokka þeirra Lars Løkke Rasmussen og Inger Støjberg. „Fyrir ári var hvorugur þeirra flokka til en hafa nú þrjátíu þingmönnum á að skipa,“ segir Ringberg. 

Hann nefndir talsverða blóðtöku meðal flokka bláu blokkarinnar, til að mynda tapaði Venstre tuttugu þingmönnum og Íhaldsmenn tveimur, þrátt fyrir að kannanir hafi sýnt verulega gott gengi þeirra í aðdraganda kosninga.