Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Grænlendingar tryggðu rauðu blokkinni meirihluta

epa10280600 Denmark's Prime Minister and head of the the Social Democratic Party Mette Frederiksen reacts before giving a speech during the election night at the Social Democratic Party election night event in Christiansborg, Copenhagen, Denmark, 01 November 2022.  EPA-EFE/Nikolai Linares  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Óhætt er að segja að mikil dramatík hafi ríkt meðan seinustu tölurnar komu upp úr kjörkössunum í Danmörku. Rauða blokkin hefur tryggt sér tilskilinn meirihluta þingmanna með fulltrúum frá Færeyjum og Grænlandi. Mette Frederiksen vill mynda nýja ríkisstjórn með breiðri skírskotun.

Öll atkvæði voru talin um miðnætti að íslenskum samkvæmt því sem fram kemur á vef danska ríkisútvarpsins

Skjótt skipast veður í lofti

Allt útlit var fyrir að Moderaterne, nýr flokkur Lars Lökke Rasmussen fyrrverandi forsætisráðherra yrði í lykilstöðu þegar kæmi að stjórnarmyndunarviðræðum. Flokkurinn fær sextán sæti og Bláa blokkin fær 72.

Rauða blokkin með Jafnaðarmannaflokk Mette Frederiksen í broddi fylkingar tryggði sér minnsta mögulega meirihluta eða níutíu þingsæti á elleftu stundu. Það náðist með tveimur þingmönnum Grænlands og einum frá Færeyjum.

Jafnaðarmenn eru jafnframt stærsti einstaki flokkurinn á þinginu, með fimmtíu þingmenn, tveimur fleiri en á seinasta kjörtímabili. Nokkur breyting varð á stöðu flokka innan rauðu blokkarinnar.

Jakob Elleman Jensen, formaður Venstre, stærsta stjórnarandstöðuflokks Danmerkur, kveðst taka fulla ábyrgð á bágu gengi flokksins sem tapaði heilum 19 þingsætum. Nýr flokkur hinnar umdeildu stjórnmálakonu Inger Støjberg fékk 14 þingmenn kjörna á danska þingið í gær.

Jafnaðarflokkurinn flokkur allra Dana

Eftir að Mette Frederiksen tókst að brjóta sér leið gegnum fagnandi mannfjöldann í Kristjánsborgarhöll hóf hún hálfklökk ræðu sína, og sagðist glöð og stolt enda hefði flokkurinn náð besta árangri í yfir tuttugu ár.

Jafnaðarflokkurinn væri flokkur allra Dana, hvort sem þeir byggju í sveit, bæ eða borg. Mette Frederiksen sagði því fylgja ábyrgð sem hún hlypi ekki undan en hún gengur á fund drottningar á morgun og skilar umboði núverandi stjórnar.

Frederiksen segir ljóst að ekki sé meirihluti að baki stjórnarinnar í núverandi mynd en hún kveðst vilja mynda stjórn með breiðri skírskotun yfir miðjuna, fái hún til þess umboð. 

Kosningaþátttaka í dönsku þingkosningunum var sú minnsta í yfir þrjátíu ár. Rétt rúm 84 af hundraði mættu á kjörstað eða hálfu prósentustigi minna en 2019.