Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vilja 167 þúsund króna hækkun á þremur árum

31.10.2022 - 13:16
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Efling vill að nýr kjarasamningur félagsins við Samtök atvinnulífsins verði byggður upp með svipuðum hætti og Lífskjarasamningurinn sem undirritaður var árið 2019. Félagið vill krónutöluhækkun sem skili félögum sínum 167 þúsund króna launahækkun á þriggja ára samningstíma. Efling vill fá 30 þúsund króna framfærsluuppbót strax auk árlegra hækkana sem verða hæstar í upphafi en lækka á samningstímanum. Þar er byggt á því að verðbólga verði mest í upphafi en fari síðan minnkandi.

Krafan er 56.700 króna launahækkun í ár, 47.700 króna hækkun á næsta ári og 32.600 króna hækkun 2024. Efling stefnir að þriggja ára kjarasamningi en vill setja í hann fyrirvara um þróun efnahagsmála, svo sem hvort að verðbólguspár gangi eftir.

Meðal annars sem kemur fram í kröfugerðinni er krafa um 30 daga orlof fyrir alla starfsmenn. Þetta er rökstutt með því að alltof stór hópur Eflingarfélaga búi við ofurálag í vinnu. Þar er vísað til kjarakönnunar sem um 4.500 félagar tóku þátt í. 

Lífskjarasamningurinn rennur út á miðnætti. Þá renna 104 samningar yfir hundrað þúsund starfsmanna út.