Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Stuðmenn aflýsa tónleikum vegna veikinda Egils

31.10.2022 - 10:57
Mynd með færslu
 Mynd: ÍSTÓN - RÚV
„Með allt á hreinu“-kvikmyndatónleikum sem áttu að vera í Hörpu 11. nóvember hefur verið aflýst. Ástæðan er veikindi forsöngvarans Egils Ólafssonar. Þetta kemur fram í tölvupósti til miðahafa, en þar segir að Egill harmi að þurfa að segja sig frá viðburðinum og biðjist velvirðingar, „en þar sem hann getur ekki lengur stólað á röddina vegna parkinson-sjúkdóms, telur hann best að koma hreint fram og játa sig vanmáttugan.“ 

Af þessum sökum hafa tónleikahaldarar séð sig knúna til að aflýsa tónleikunum. 

Þá segir einnig í póstinum að Stuðmenn tilkynni á næstu vikum nýtt verkefni í tilefni 40 ára afmælis kvikmyndarinnar Með allt á hreinu.

Egill steig síðast á svið með Stuðmönnum 8. júlí. 

Egill hefur verið áberandi í íslensku menningarlífi í áratugi, sem söngvari, leikari og tónskáld. Hann gekk til liðs við Stuðmenn áður en platan Sumar á Sýrlandi kom út árið 1975, en þess fyrir utan gerði hann garðinn frægan með hljómsveitunum Spilverki þjóðanna og Þursaflokknum. Með allt á hreinu kom út árið 1982 og er ein aðsóknarmesta kvikmynd íslenskrar kvikmyndasögu. 

Ekki náðist í Egil Ólafsson við vinnslu fréttarinnar. 

Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir
Fréttastofa RÚV