Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Spennan magnast í kosningabaráttunni í Danmörku

epa10248317 Mette Frederiksen (R), chairman of the Social Democrats, and Jakob Ellemann-Jensen, chairman of Denmark's Liberal Party, shake hands before a debate between candidates for the position of prime minister of Denmark, at the Danish Broadcasting Corporation in Copenhagen Denmark, 16 October 2022 (issued 17 October 2022). The general election will be held on 01 November 2022.  EPA-EFE/MADS CLAUS RASMUSSEN DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - Ritzau Scanpix
Spennan er mikil í Danmörku þar sem kosið verður til þings á morgun. Leiðtogar flokkanna mættust í kappræðum í Danska ríkissjónvarpinu í gær. Hallgrímur Indriðason fréttamaður er staddur í Kaupmannahöfn og fór yfir það í hádegisfréttum hvað bar hæst í kappræðunum í gærkvöld.

Mest sótt að Lars Løkke

„Það má segja að Lars Løkke Rasmussen hafi verið einn af aðalmönnunum, í það minnsta var mest sótt að honum. Meðal annars var hann mikið gagnrýndur fyrir umfangsmiklar umbótatillögur í heilbrigðismálum, þar á meðal af Mette Frederiksen forsætisráðherra, sem taldi þó að þau gætu komist að samkomulagi um umbætur,“ sagði Hallgrímur.

„En Jakob Elleman Jensen, leiðtogi Venstre, sem tók við því starfi af Lars Løkke, sagði hins vegar að þó að hann vildi ekki ríkisstjórn þvert á blokkir eins og Lars Løkke hefur talað fyrir, þá taldi hann þá sammála um nauðsynlegar umbætur í ýmsum málum. Elleman-Jensen sagði að ef hann hafi drauma um að koma á slíkum umbótum, eigi hann bara að koma heim - sem sagt aftur í Venstre.“

Hátt í fimmtungur á eftir að ákveða sig

Kannanir sýna Lars Løkke í lykilstöðu, eru þetta líklegustu úrslitin?

„Það er ómögulegt að segja og það eru í raun tvær ástæður fyrir því. Annars vegar eru vikmörkin á þessari síðustu könnun sem var birt í gær 1,3 prósent. Þegar svo litlu munar á fylgi getur þetta færst eitthvað til í kosningunum sjálfum. Hins vegar þá benda kannanir til þess að hátt í fimmtungur kjósenda eigi enn eftir að gera upp hug sinn, sem þýðir að það er enn eftir mörgum atkvæðum að slægjast. Þannig að óvissan er töluverð ennþá,“ sagði Hallgrímur.

Og hvað gera leiðtogarnir í dag?

„Sumir fara út af örkinni og tala við kjósendur en það eru ennþá einar sjónvarpskappræður eftir - þær verða á TV2 í kvöld, og það verður fróðlegt að sjá hvernig andinn verður í þeim kappræðum samanborið við þær sem fóru fram í gærkvöld,“ sagði Hallgrímur Indriðason fréttamaður, sem staddur er í Kaupmannahöfn að fjalla um kosningarnar.