Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Íslandsbankaskýrslan ekki afhent fyrir helgi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka verður ekki afhent forseta Alþingis í þessari viku. Þetta staðfestir Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í samtali við fréttastofu í dag. Útgáfu skýrslunnar hefur ítrekað verið frestað, en í fyrstu var búist við henni í júní.

Þórunn segir í samtali við fréttastofu að hún hafi fengið það staðfest eftir samtal við Ríkisendurskoðanda að skýrslan verði ekki afhent í vikunni. Hún fékk enga nákvæma afhendingardagsetningu, en segist gera ráð fyrir því að hún verði komin til Alþingis í nóvembermánuði.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fór þess á leit við Ríkisendurskoðun í byrjun apríl að stofnunin gerði úttekt á hvort sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Forsaga málsins er að uppi varð fótur og fit eftir að kaupendalistinn var birtur, þar sem mætt voru á sjónarsviðið á ný mörg þekkt nöfn úr hruninu. Mótmælt var ítrekað á Austurvelli og stjórnarandstaðan fór fram á að skipuð yrði rannsóknarnefnd Alþingis en svo var ekki gert. 

Nú er verið að vinna úr umsögnum fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Bankasýslu ríkisins um skýrsludrögin. Ráðuneytið fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum og Bankasýslunni var falið að selja umræddan hluti í Íslandsbanka. Frestur til að skila inn umsögnum rann út um miðja síðustu viku og skiluðu bæði ráðuneytið og Bankasýsla ríkisins umfangsmiklum umsögnum.