Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fjölmörg óákveðin síðasta daginn fyrir kosningar

Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson / RÚV
Kosið verður til þings í Danmörku á morgun. Mette Frederiksen var hyllt af kjósendum þegar hún ræddi við þá á kosningafundum í dag. Frambjóðandi Moderaterna segir flokkinn vilja vera í lykilstöðu eftir kosningar.

Flokksleiðtogarnir heilsuðu fjörugum stuðningsmönnum sínum fyrir kappræðurnar í danska ríkissjónvarpinu í gærkvöld. Í dag, á lokadegi fyrir kosningarnar, var hins vegar komið að því að sækja þau fjölmörgu atkvæði sem liggja á lausu. Um 750.000 Danir hafa enn ekki gert upp hug sinn. Við sjúkrahúsið í Hvidovre buðu Moderaterne vegfarendum boðið upp á bæði pólitískan boðskap og kaffi. Frambjóðandinn þar er nýgræðingur í stjórnmálum. „Ég er læknir dags daglega og vinn sem læknir á spítala en nú er ég í framboði til þings því ég vil endilega bæta danska heilbrigðiskerfið,“ segir Monika Rubin, frambjóðandi Moderaterne, í viðtali við Hallgrím Indriðason í Kaupmannahöfn.

En það var enginn nýgræðingur sem mætti á Vanlöse torv að hitta kjósendur. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, vakti mikla aðdáun, og hafði margt að ræða við kjósendur. Hún gaf ekki kost á viðtali þegar leitað var eftir því. Lars Werge, frambjóðandi Jafnaðarmanna, segist búast við um 27% fylgi í kosningunum á morgun. „Við stokkum upp í ríkisstjórninni og sjáum hvernig það gengur, hverjir fylgja okkur í stjórn. Ég sjálfur á erfitt með Lars Løkke í þessu hlutverki aftur því vegna fortíðar sinnar þykir mér hann ótrúverðugur en kjósendurnir ráða, ef þeir fela honum embættið aftur verðum við að hlusta á þá því kjósendurnir ráða úrslitum,“ segir Werge.