Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hyggjast banna eiturúðun á 2.000 ferkílómetrum lands

Mynd með færslu
Fulltrúar „rauðu blokkarinnar“ í dönskum stjórnmálum með Mette Frederiksen forsætisráðherra (t.h.) í fararbroddi kynna áform sín um friðun 2.000 ferkílómetra ræktarlands fyrir úðun hvers kyns eiturefna Mynd: DR
Fulltrúar dönsku ríkisstjórnarflokkanna og annarra flokka sem mynda hina svokölluðu rauðu blokk í dönskum stjórnmálum kynntu í gær áform sín um að banna notkun skordýra- og illgresiseyðis í landbúnaði á allt að 2.000 ferkílómetrum fram til ársins 2030. Fulltrúum stærstu hagsmunasamtaka danska landbúnaðarins líst illa á áformin.

 „Grunnvatnið og okkar hreina drykkjarvatn eru í hættu. Þess vegna leggjum við til friðun á svæði sem er um það bil fjórum sinnum stærra en [eyjan] Falstur,“ sagði forsætisráðherrann Mette Frederiksen á sameiginlegum fréttafundi rauðu blokkarinnar um málið í gær. Landið sem friða skal er ræktar- og landbúnaðarland í dag og Frederiksen sagði að bændum yrði bættur skaðinn. Hún vildi ekki nefna endanlega upphæð en sagði gengið út frá því að „250 milljónir séu ekki fjarri lagi,“ eða jafnvirði 4,8 milljarða íslenskra króna.

Fólk „í áfalli“ hjá hagsmunasamtökum landbúnaðarins

Hjá hagsmunasamtökum bænda og matvælaframleiðenda, Landbrug og Fødevarer, er fólk „í áfalli“ að sögn formannsins Søren Søndergaard. Hann segir að þetta muni kosta þúsundir starfa ef af verður og að bæturnar hljóti að verða nærri þeim sem samið var um eftir minkahneykslið mikla og hljóðuðu upp á jafnvirði um 400 milljarða íslenskra króna.

Søndergaard segir samtökin hafa reynt viðræður við stjórn Jafnaðarmanna síðustu þrjú ár. Nú velji Jafnaðarmenn að fara í slagtog við flokkana „yst á vinstri kantinum“ og rjúfa þar með langtímasamkomulag sem blekið er varla þornað á. „Menn velja einfaldlega að berja á heilum atvinnuvegi til að halda sætunum á ráðherrakontórunum,“ segir Søndergaard í viðtali við Danmarks Radio.