Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Pútín segir Rússland berjast fyrir tilvist sinni

epa10269289 Russia's President Vladimir Putin speaks during the session 'The World after Hegemony: Justice and Security for Everyone' of the Valdai International Discussion Club outside Moscow, Russia, 27 October 2022.  EPA-EFE/SERGEI KARPUKHIN/SPUTNIK/KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Rússlandsforseti segir land sitt berjast fyrir tilvist sinni gagnvart þeim vestrænu öflum sem hafi einsett sér að eyða Rússlandi. Þetta kom fram í ávarpi forsetans í dag.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ávarpaði gesti rússnesku hugveitunnar Valdai-klúbbsins og sakaði Vesturlönd um að vilja hreinsa Rússland af yfirborði jarðar. Sky-fréttastofan fylgdist með. 

„Rússland hefur ekki boðið vestrænu yfirstéttinni byrginn, heldur berst aðeins fyrir áframhaldandi tilverurétti sínum,“ sagði Pútín og bætti við að heimsyfirráð vestursins væru senn á enda. 

Innrásin birtingarmynd áralangrar spennu

Pútín kvað innrásina í Úkraínu birtingarmynd áralangrar spennu í veröldinni, svipaðri þeirri sem verður í jarðskorpunni.

Hann staðhæfði að Vesturlönd hefðu hrakið Rússa til aðgerða í Úkraínu með öryggisógnunum en að innrásin muni til lengri tíma hagnast Rússum.

Hann hafi ekki átt annars úrkosti en að láta til skarar skríða gegn Úkraínu enda hafi stjórnvöld í Kyiv ætíð hunsað Minsk-samkomulagið.

Segir að bjarga hafi þurft íbúum Donbas

„Við urðum að ákveða hvað ætti að gera við Donbas, enda bjuggu íbúar þar við blóðuga bardaga um átta ára skeið,“ og því hafi verið rökrétt að innlima héruðin í Rússland.

Úkraínumenn hafa ætíð þvertekið fyrir þessi rök Pútíns. Hann segir allt eins líklegt að úkraínsk stjórnvöld hefðu lagt til atlögu, hann kallar stríðið nokkurs konar borgarastríð og að Úkraína sé „gerviríki“.  

Rússlandsforseti segir Vesturlönd ætla að tryggja völd sín í heiminum til að ná tangarhaldi á auðlindum heims. Mat Pútíns er að Vesturlönd þurfi senn að hefja samtal við Rússland um sameiginlega framtíð heimsins. 

„Þau hella olíu á eld átakanna í Úkraínu, espa upp spennu milli Kína og Taívan auk þess sem þau vilja auka spennu á fæðu- og orkumörkuðum heims,“ sagði Pútín. 

Segist aldrei hafa að fyrra bragði hótað beitingu kjarnavopna

„Vesturlönd beita viðskiptaþvingunum á hvert það ríki sem ekki vill vera undir járnhæl þeirra,“ sagði Pútín um leið og hann sakaði Bandaríkjamenn um að nota gjaldmiðil sinn sem vopn. 

Pútín segir Vesturlönd beita öllum brögðum til að fá önnur ríki, bandamenn eða hlutlaus, til að standa gegn Rússlandi. Umræðan um kjarnorkuvopn sé hluti þeirrar orðræðu.

„Við höfum aldrei að fyrra bragði talað um beitingu kjarnaorkuvopna,“ sagði Pútín, „heldur aðeins ýjað að viðbrögðum eftir yfirlýsingar frá leiðtogum Vesturlanda.“