Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Miklu stærra mál en að þetta sé bara mál skólanna“

Stefán Már Gunnlaugsson, formaður foreldrafélags Hraunvallaskóla.
 Mynd: Stefán Már Gunnlaugsson - RÚV
Yfir hundrað foreldrar mættu á opinn fund í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði í gærkvöld um samskipti og viðbrögð við einelti. Formaður foreldrafélags skólans telur að skólinn vinni eftir góðum áætlunum en eitt eineltismál sé þó einu máli of mikið. Hann telur að nú sé tækifæri til að læra af reynslunni - ekki megi skella allri ábyrgð á skólana; þetta sé samstarf foreldra og skóla. Auk þess sé mikilvægt að áætlanir vegna eineltismála séu mótaðar ofar í menntakerfinu.

„Það er sett mjög mikil ábyrgð í hendurnar á skólunum“

Ung stúlka í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði kom fram í fréttum í síðustu viku og sagði frá grófu einelti sem hún hafði orðið fyrir. Í kvöldfréttum í gær steig móðir fram og sagði son sinn hafa orðið fyrir einelti í sama skóla, sem olli því að fjölskyldan endaði á að flytja í annan landshluta. Foreldrafélag Hraunvallaskóla hélt opinn fund í gærkvöld um samskipti og viðbrögð við einelti. Fundurinn var fjölmennur, en yfir 100 foreldrar mættu á hann. Stefán Már Gunnlaugsson, formaður foreldrafélagsins, segir hann hafa verið gagnlegan og upplýsandi. Samkvæmt upplýsingum sem komið hafi þar fram vinni skólinn eftir góðum áætlunum, sem séu virkar. Eitt eineltismál sé þó einu máli of mikið. 

„Og þar erum við líka öll kölluð til ábyrgðar. Ekki bara skólasamfélagið heldur við líka; foreldrar. Líka bæjaryfirvöld og líka ríkisstjórnin. Það er sett mjög mikil ábyrgð í hendurnar á skólunum, að þeir eigi að sjá um þetta. Þetta er miklu stærra mál en að þetta sé bara mál skólanna.“

Réttast væri að áætlanir og viðbrögð við einelti í skólum kæmu ofar úr kerfinu - ekki aðeins frá skólunum sjálfum. Hann segir að mikilvægt sé að reyna alltaf að gera betur í eineltismálum. Fundurinn í gær hafi verið liður í því - að opna umræðuna, ræða mál ofan í kjölinn og reyna að læra af reynslunni, horfa til framtíðar og gera betur. 

„Og mér finnst við vera á þeirri vegferð.“

Upplifun Stefáns af fjölmennum fundinum í gær var að mikill vilji væri til að leggjast á eitt við að vinna að lausnum á eineltismálum. „Og finna uppbyggjandi leiðir. Ekki vera að skamma eða slíkt, heldur að styðja og hjálpa, þannig að við getum breytt menningunni. Það held ég að sé verkefni alls samfélagsins, að takast á við þetta í sameiningu.“ 

Samvera foreldra og barna skiptir miklu máli

Stefán segist hafa orðið þess áskynja að eftir að opnað var á fyrra málið eigi foreldrar í skólanum virkari samtöl við börn sín um einelti og samskipti.

„Síðan er líka það sem skiptir svo miklu máli í þessu, það er samvera foreldra með börnunum. Það kemur ekkert í staðinn fyrir hana og við höfum vissulega áhyggjur af því hvað símarnir og samfélagsmiðlarnir hafa áhrif á það. Hvar eru börnin okkar? Þó þau séu heima, hvar eru þau stödd á þeim miðlum? Best er að við séum sem mest með börnunum okkar, í samtali við þau, eða bara að horfa á sjónvarpið með þeim eða gera eitthvað annað sem felur í sér samveru barna og foreldra.“

Stefán bendir á að foreldrar Hraunvallaskóla séu að taka fyrstu skrefin í þessari vinnu með skólanum. Mikil vinna sé fram undan.

„Við eigum í góðu samstarfi við skólayfirvöld og það skiptir máli. Að við séum höfð með í ráðum og samtalið sé virkt. Við erum mjög sátt með það hvernig það er að virka og það eru allir á því að við ætlum að læra af þessari reynslu og gera betur.“