Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Eftirlit hert með íbúum Zaporizhzhia

27.10.2022 - 14:10
An internally displaced girl waits for family members outside the bus as they arrive in Zaporizhzhia, Ukraine, Friday, April 1, 2022. (AP Photo/Felipe Dana)
 Mynd: AP - RÚV
Rússneskir hermenn hafa í dag stöðvað íbúa hernumda héraðsins Zaporizhzhia á förnum vegi og skoðað síma þeirra. Aðgerðirnar eru hluti af hertum öryggisreglum í héraðinu þar sem herlög eru í gildi.

„Frá og með deginum í dag hefst handahófskennt, fyrirbyggjandi eftirlit löggæslumanna með farsímum borgara í Zaporizhzhia,“ segir Vladimir Rogov fulltrúi rússneska hernámsliðsins.

„Finnist áróður frá hryðjuverkastjórninni í Kyiv verður veitt viðvörun en endurtaki leikurinn sig bíður sekt hinna seku,“ segir Rogov. Sömuleiðis verði beitt þungum viðurlögum fyrir brot á lögum um starfsemi erlendra afla í Rússlandi. 

Vladimir Pútín Rússlandsforseti boðaði 19. október innleiðingu herlaga í innlimuðu héruðunum Donetsk, Luhansk, Kherson og Zaporizhzhia. Rússar ráða héruðunum ekki að fullu og Úkraínumenn halda Zaporizhzhiaborg ásamt stórum svæðum norðanvert í héraðinu.