Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fresta sýningum eftir að leikara var vísað úr landi

Borgarleikhúsið
 Mynd: Borgarleikhúsið - Ljósmynd
Borgarleikhúsið hefur frestað sýningum á leikritinu Snákur vegna þess að leikara úr sýningunni var vísað úr landi. Talsmaður leikhússins segist bjartsýnn á að hægt verði að setja verkið upp eftir nokkra mánuði.  

Snákur er samstarfsverkefni Borgarleikhússins og Rauða krossins þar sem flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd segja sögur sínar. Sýningar áttu að hefjast á Stóra sviði leikhússins í næstu viku en þeim hefur verið frestað þangað til í vor, eftir að Útlendingastofnun vísaði einum leikaranna úr landi.

Snákur var líka sett upp á síðasta leikári og þá urðu einnig nokkrar raskanir á sýningum vegna þess að leikara var vísað úr landi, samkvæmt heimildum fréttastofu.

„Okkur skilst að einum þátttakanda hafi verið vísað úr landi núna í vikunni. Og það hefur tekið svolítið á,“ segir Hlynur Páll Pálsson er samskiptastjóri Borgarleikhússins.

Haldið þið að þið getið eitthvað frekar sett þetta upp í vor? Er eitthvað ólíklegt að fleiri leikurum hafi þá verið vísað úr landi? „Já, já, við höfum alveg fulla trú á því að við getum endurtekið leikinn næsta vor. Ekki spurning.“

Þorsteinn Valdimarsson verkefnastjóri málefna umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossinum segir að Rauði krossinn hafi frétt af brottvísuninni eftir á.

„Þetta kom hópnum okkar svolítið í opna skjöldu, þau eru í sárum og því var sú ákvörðun tekin að fresta sýningunni. Eins leiðinlegt og það var, þá tel ég að það hafi verið rétt ákvörðun,“ segir Þorsteinn.