Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Skoða að bæta við tíu húsum fyrir flóttafólk

Rautt og hvítt skilti með ör sem vísar á inngang fjöldahjálparmiðstöðvar Rauða krossins.
 Mynd: Atli Viðar Thorstensen - RKÍ
Viðræður eru í gangi um að ríkið taki á leigu um tíu hús, sem samtals gætu hýst allt að 600 flóttamenn. Í vikunni verður tekið í notkun hús fyrir hundrað karlmenn sem koma einir síns liðs til landsins. Haldi fram sem horfir gæti flóttafólk þurft að dvelja lengur í fjöldahjálparstöð en það þriggja daga hámark sem sett var þegar hún var opnuð.

Gylfi Þór Þorsteinsson aðgerðastjóri yfir móttöku flóttafólks segir að farið sé að þrengja að húsnæðiskostum. „Þetta er farið að verða aðeins þyngra en oft áður,“ segir Gylfi.

Og útlit er fyrir að fólkið þurfi að dvelja lengur í fjöldahjálparstöðinni sem opnuð var í byrjun mánaðarins en hingað til.  „Mér sýnist á þeim tölum sem ég er með fyrir framan mig að einhverjir þurfi að dvelja eitthvað áfram þarna eftir helgina.“

Gæti það þá verið umfram þetta þriggja daga hámark sem var talað um þegar fjöldahjálparstöðin var opnuð? „Það gæti alltaf komið að því.“ Er að fara að nálgast það stig að það er einfaldlega ekki meira húsnæði í boði? „Það er nú langt í það, vil ég meina. Við erum að fara að opna á fleiri stöðum núna í vikunni rými þar sem við komum fyrir karlmönnum sem eru einir á ferð. Allt að 100 manns.“

Þar er um að ræða hús, þar sem áður var hótel. Og meira er á döfinni, að sögn Gylfa. „Ég er með á lista hér fyrir framan mig einhvern tug sem við erum með í skoðun.“ Sem er þá misstórt og hýsir mismarga? „Já, það er þannig,“ segir Gylfi og bætir við að það húsnæði ætti að hýsa 500 - 600 manns.