Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Jarðskjálftar við Herðubreið

23.10.2022 - 08:32
Úr Sumarlandanum 2021 https://www.ruv.is/frett/2021/07/21/fa-aldrei-nog-af-obyggdunum
 Mynd: Sturla Holm Skúlason - RÚV
 Jarðskjálfti 4,1 að stærð mældist skammt norðan við Herðubreið klukkan rúmlega ellefu í gærkvöld. Rúmri klukkustund áður reið annar skjálfti þar yfir og var hann 3,1 að stærð. Alls hafa þrír skjálftar yfir 3 að stærð mælst frá upphafi hrinunnar, rétt fyrir klukkan tíu í gærkvöld.

Að sögn Lovísu Mjallar Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, bárust fimm tilkynningar um að stærsti skjálftinn hefði fundist á Akureyri. Fólk sagðist ýmist hafa fundið lítið eða miðlungs mikið fyrir skjálftanum.

Talsverð eftirskjálfta virkni hefur mælst á þessum slóðum í nótt. Sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar hefur staðsett um 600 jarðskjálfta í grennd við Herðubreið.

Lovísa segir stærsta jarðskjálfta hrinunnar einnig þann stærsta sem hafi orðið á þessum stað frá því mælingar hófust með núverandi kerfi Veðurstofunnar árið 1991. „Næststærsti skjálftinn mælist 1998, 4 að stærð. Síðan eru tveir árið 2014 3,9 og 3,8 að stærð.“

Hún segir jarðskjálftahrinur hafa verið nokkuð reglulegar þarna í gegnum tíðina. „Og þetta er ekki það mikið stærri skjálfti að við séum að hafa einhverjar sérstakar áhyggjur af þessu. Við fylgjumst náttúrulega bara með, förum vel yfir alla skjálfta og svoleiðis.“

Herðubreið er óvirkt eldfjall. „Það hefur bara gosið einu sinni þarna á rétt rúmum tíu þúsund árum, eitthvað svoleiðis. Þannig að það er ólíklegt að þetta sé kvikutengt eða þvíumlíkt. En við fylgjumst alltaf vel með þegar það eru hrinur og förum vel yfir skjálfta. Sérstaklega líka þegar þeir finnast í byggð og svona,“ segir Lovísa.

 

Fréttin hefur verið uppfærð.
 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir
Fréttastofa RÚV