Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Icelandair ætlar að bæta við sig fimm 737 MAX vélum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Mönnunarvandi á flugvöllum víða um heim hafði afar neikvæð áhrif á flugáætlanir Icelandair í sumar. Tíðar ferðir og fjölbreyttir brottfarartímar eru þó sagðir hafa dregið úr alvarlegri röskun á áætlunum farþega flugfélagsins.

Þetta kom fram á fjárfestakynningu Icelandair í morgun. Í sumar var talsvert fjallað um bagalegt ástand á alþjóðaflugvöllum víða um heim. Tilslakanir á takmörkunum vegna COVID-19 ollu miklum vexti í ferðaþjónustu. Mönnun, sérstaklega á flugvöllum, gekk ekki eins hratt. Því var mikið um seinkanir á ferðum, farþegum var ráðlagt að mæta fyrr en áður í flug, áætlanir röskuðust svo mjög að fjölmörgum ferðum var aflýst og ófáir ferðalangar urðu strandaglópar, misstu af tengiflugi og urðu að gera kostnaðarsamar breytingar á ferðalögum sínum. 

Í kynningu Icelandair kom einnig fram að tafir hefðu orðið á yfirferð á flota flugfélagsins innanlands. Hægagangur hefði einnig verið á afhendingu aðfanga. Þetta hefði valdið röskun á áætlun í innanlandsflugi. 

Icelandair stefnir á að fjölga Boeing 737 MAX flugvélum sínum úr fimmtán í tuttugu fyrir árslok 2023. 

Reiknað er með að flugumferð Icelandair verði 98 prósent af því sem hún var 2019, á síðasta fjórðungi þessa árs. Áfram verði áskoranir í rekstrarumhverfi og vaxtahækkanir og aukinn kostnaður hafi líklega áhrif á eftirspurn. Bókunarstaða á fjórða ársfjórðungi er sögð stöðug þrátt fyrir óvissu í efnahagsmálum.