Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Brýnt að bregðast við vanda ÍL-sjóðs

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkið gæti að óbreyttu þurft að borga hátt í 200 milljarða á núvirði til að standa undir kostnaði vegna uppgjörs gamla Íbúðalánasjóðs. Fjármálaráðherra segir mikilvægt að bregðast við stöðunni sem fyrst til að lágmarka áhættu ríkissjóðs.

 

ÍL sjóður var stofnaður árið 2019 til að halda utan um lánasafn gamla Íbúðalánasjóðs. Staða sjóðsins hefur farið hratt versnandi á undanförnum árum. Margir hafa kosið að greiða upp sín lán og færa þau til annarra lánastofnana út af breyttum vaxtakjörum. Sjóðurinn er hins vegar illa varinn fyrir slíkum uppgreiðslum.

Ríkisábyrgð er á sjóðnum en í skýrslu sem fjármálaráðherra birti í dag segir að sjóðurinn fari að óbreyttu í þrot eftir tólf ár og þá reyni á þessa ábyrgð.

Niðurstöður skýrslunnar sýna að sjóðurinn geti greitt afborganir og vexti af skuldbindingum sínum til ársins 2034 . Gert er ráð fyrir að staða sjóðsins þá verði neikvæð 170 milljarða á núvirði. Ef hins vegar sjóðnum væri slitið nú og eignir seldar og ráðstafað til greiðslu á skuldum, myndi neikvæð staða nema 47 milljörðum króna.

Fjármálaráðherra segir að staðan sé alvarleg og nauðsynlegt að grípa strax til aðgerða.

„Ég held að það sé bráðnauðsynlegt að horfast strax í augu við þennan vanda og grípa til aðgerða þannig að hann haldi ekki áfram að vaxa vegna þess að hann hefur verið að vaxa yfir langan tíma en við höfum ekki tekið afstöðu til þess hvernig við ætlum að gera upp ríkisábyrgðina á þessum gömlu skuldbindingum. Nú finnst mér kominn tími til þess,“ segir Bjarni.

Bjarni segir að tvær raunhæfar leiðir séu í boði. Annars vegar að slíta sjóðnum sem kallar á sérstaka lagasetningu eða hins vegar ná samkomulagi við skuldabréfaeigendur, sem aðallega eru innlendir lífeyris- og verðbréfasjóðir.

„Ég hygg að það sé öllum fyrir bestu að við notum næstu vikur til að láta á það reyna hvort hægt er að gera þetta í samkomulagi við kröfuhafa sjóðsins. Ef það er ekki hægt nú þá kostar hver mánuður framtíðarskattgreiðendur um einn og hálfan milljarð. Þess vegna finnst mér ekki forsvaranlegt annað en eftir áramótin að koma þá með tillögu til Alþingis um hvernig við gætum leitt fram slit sjóðsins og þannig uppgjör á ríkisábyrgðinni,“ segir Bjarni. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV