Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

2,3 milljónir ferðamanna til landsins á næsta ári

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Ferðamálastofa spáir að 1,7 milljónir erlendra ferðamanna komi til landsins um Keflavíkurflugvöll í ár. Á næsta ári er gert ráð fyrir að þeim fjölgi um 600 þúsund.

Dr. Gunnar Haraldsson hjá ráðgjafafyrirtækinu Intellecta hefur leitt vinnu við þróun spákerfis um erlenda ferðamenn hér á landi en verkefnið fór af stað haustið 2020. Samkvæmt spánni koma hingað til lands tæp 1,7 milljón ferðamanna.

„Á næsta ári spáum við að þeir verði rúmlega 2,3 milljónir. Það verður þó að hafa ákveðinn fyrirvara á þessum spám því margir óvissuþættir geti haft áhrif á hana".

Auk þess að spá fyrir um fjölda þeirra sem hingað koma var rýnt í tekjurnar. „Við erum að skoða kortavelta og samkvæmt spánni gerum við ráð fyrir að upphæðin sem þeir eyði sé um 250 milljarðar í ár og um 330 á næsta ári. Það er því töluvert sem erlendir ferðamenn eyða á Íslandi í alls kyns vörur og þjónustu. Tölur okkar byggjast á upplýsingum frá innlendum kortahirðum".  

Gunnar segir að vetrarferðamennskan sé að ná sér á strik en einhverjar vísbendingar eru um að árstíðasveiflurnar séu að jafnast út. Gistinætur í ár verða tæplega 4,5 milljónir en samkvæmt spánni verða þær 5,5 milljónir á næsta ári. Samkvæmt langtímaspá er gert ráð fyrir því að erlendir ferðamenn 2030 verðir 3,5 milljónir.
 
 

Arnar Björnsson