Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Útilokar ekki að Jón haldi áfram sem dómsmálaráðherra

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins vill ekki útiloka að Jón Gunnarsson haldi áfram sem dómsmálaráðherra þegar breytingar verða gerðar á ráðherraliði Sjálfstæðismanna á næsta ári.

Bjarni segist þó standa við fyrri yfirlýsingar um að Guðrún Hafsteinsdóttir taki við ráðherraembætti þegar 18 mánuðir eru liðnir af þessu kjörtímabili. Upphaflega var þó gert ráð fyrir að Guðrún tæki við af Jóni.

„Það stendur enn þá að ég stefni á að gera breytingu þannig að Guðrún komi inn í ríkisstjórnina þegar um það bil átján mánuðir eru liðnir og ekki síðar en það,“ segir Bjarni.

En fer Jón þá út úr ríkisstjórn?

„Við skulum bara sjá hvað gerist þegar að því kemur,“ segir Bjarni.

Hann vill þó ekki svara því hvort Guðrún taki við embætti dómsmálaráðherra af Jóni eða hvort Jón haldi sínum ráðherrastól og Guðrún taki þá við öðru ráðherraembætti.

„Ég ætla að áskilja mér rétt að meta það fram að þeim tíma,“ segir Bjarni.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV