Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þrettán hross felld en öðrum skilað aftur til baka

19.10.2022 - 09:34
Mynd með færslu
 Mynd: Steinunn Árnadóttir - Aðsend
Matvælastofnun tilkynnti hrossaeiganda á Vesturlandi um vörslusviptingu á mánudag sem kom til framkvæmda í gær. Við skoðun á hrossunum var ástand 13 þeirra metið það alvarlegt að aðgerðir þyldu enga bið. Tólf voru send í slátúrhús, en eitt aflífað á staðnum. 

Fréttastofa greindi frá því fyrir nokkrum vikum að ábúandi í Borgarfirði væri sakaður um vanrækslu hrossa sinna. Meðal annars var lögregla kölluð á staðinn, en vísað á að Matvælastofnun hefði ítrekað verið látin vita en ekkert hafi verið gert.

Það varð meðal annars til þess að Ríkisendurskoðun ákvað að hefja frumkvæðisúttekt á eftirliti Matvælastofnunar með velferð dýra. Niðurstaða úttektarinnar verður birt í opinberri skýrslu til Alþingis. 

Í tilkynningu á vef MAST í morgun segir að vörslusvipting hafi komið til framkvæmda í gær. Ákveðið var að fella þrettán hross. Þau voru í mjög slæmum holdum, auk þess sem nokkur þeirra voru gengin úr hárum. „Að teknu tilliti til árstíma var tekin sú ákvörðun að senda tólf hross samdægurs í sláturhús en eitt var aflífað á staðnum.“

Önnur reyndust vera í ásættanlegum holdum eins og það var orðað, og var þeim skilað aftur til umráðamanns. Tíu þeirra eru þó enn metin í viðkvæmu ástandi og skulu njóta sérstakrar umhirðu.

„Málið er því enn til meðferðar hjá stofnuninni þar sem kröfum um úrbætur verður fylgt eftir,“ segir í tilkynningu MAST.