Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Viljum ekki að fólk keyri heim undir áhrifum“

18.10.2022 - 14:17
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Þingmaður Pírata segir að alvarlegt ástand ríki í almenningssamgöngum hér á landi. Skortur á leigubílum og ákvörðun Strætó um að hætta næturakstri valdi því að fólk kemst ekki lengur heim til sín úr miðborg Reykjavíkur á öruggan og einfaldan hátt.

Stjórn Strætó bs. hefur ákveðið að hætta rekstri strætisvagna að næturlagi þar sem aksturinn stóð ekki undir sér. Fjárhagsstaða Strætó er slæm og um síðustu mánaðamót var var gjaldskráin hækkuð um allt að 12,5 prósent til að mæta þessum vanda.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata tók málið upp á Alþingi í dag. Hún sagði að alvarlegt ástand ríki í almenningssamgöngum. Skortur á leigubílum sé viðvarandi vandamál og fólk þurfi í síauknum mæli að bíða jafnvel klukkustundum saman eftir slíku fari þegar það á ekki annarra kosta völ.

„Það að fólk komist heim til sín á öruggan og einfaldan hátt eftir næturlífið er hins vegar ekki eitthvert gæluverkefni, það varðar bæði jafnrétti en ekki síður almannaöryggi. Þegar fólk ílengist í miðbænum í örtröð í misjöfnu ástandi aukast líkurnar á því að eitthvað fari úrskeiðis. Við viljum auðvitað ekki að fólk keyri heim undir áhrifum né heldur þykir það sérstaklega skynsamlegt að stýra rafskútum eftir nokkra kalda svo að það verða að vera aðrir valkostir í boði,“ sagði Arndís.

Arndís sagði almenningssamgöngur ekki vera hagnaðartól heldur tilheyra grunninnviðum samfélagsins.

„Á sama tíma og ríkisstjórnin hefur dælt hátt í heilum tug milljarða í niðurgreiðslur nýrra raf- og tvinnbíla, fyrst og fremst fyrir vel stætt fólk, þá hefur aðeins einum verið varið í almenningssamgöngur. Það er loftslagsmál, það er jafnréttismál, það er öryggisatriði og það er almannahagur að tryggja almenningssamgöngur fyrir öll,“ sagði Arndís.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir